Fara í efni
Íþróttir

Aðalstjórn vill að stofnuð verði fimleikadeild KA

Aðalstjórn Knattspyrnufélags Akureyrar hefur samþykkt að mæla með og leggja fyrir félagsmenn stofnun fimleikadeildar innan KA. Af því tilefni og í samræmi við lög félagsins hefur verið boðað til félagsfundar fimmtudagskvöldið 30. nóvember. Þetta kemur fram á heimasíðu KA og þess getið að á fundinum muni aðalstjórn einnig kynna stöðu uppbyggingarmála hjá KA og þau verkefni sem framundan eru hjá félaginu.

Þegar gjaldþrot vofði yfir Fimleikafélagi Akureyrar (FIMAK) í sumar vegna mikilla skulda hljóp Akureyrarbær undir bagga með launagreiðslur og setti þá það skilyrði að félagið færi í sameiningarviðræður við annað félag. Forráðamenn félagsins ræddu bæði við KA og Þór og tilkynntu í ágúst að ákveðið hefði verið, með hagsmuni FIMAK í huga, að hefja samningaviðræður við KA.