Kraftlyftingamenn á Akureyri árið 1980
GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – VIII
Áttunda gamla íþróttamyndin birtist á Akureyri.net í dag lesendum til skemmtunar. Annar tilgangur er að fá aðstoð við að nafngreina fólk á myndum og safna jafnvel skemmtilegum sögum og hvers konar upplýsingum.
Sá sem þetta skrifar tók meðfylgjandi mynd árið 1980 og þykist þekkja nöfn allra. Þetta er á kraftlyftingamóti sem fram fór í íþróttahúsi Glerárskóla. Efstur með bikarinn er Arthúr Bogason – kallaður Norðurhjaratröllið – en hann setti einmitt Evrópumet í réttstöðulyftu þetta ár. Sumum akureyrskum kraftlyftingamönnum var fundið skemmtilegt gælunafn á þessum árum og sá sem krýpur, Víkingur Traustason, var kallaður heimskautabangsinn! Lengst til hægri er Jóhannes heitinn Hjálmarsson sem tvívegis varð heimsmeistari öldunga í kraftlyftingum.
Nú hefst leikurinn: þekkja lesendur alla þessa kappa í sjón? Endilega sendið upplýsingar og jafnvel skemmtilegar sögur af þeim á netfangið skapti@akureyri.net