Fara í efni
Pistlar

Keðjuverkanir

Sem og oft áður verð ég eiginlega svolítið ráðvilltur gagnvart ýmiskonar hlutum sem mér finnast óskiljanlegir. Stundum leita ég mér útskýringa hjá mér fróðara fólki eða í bókum eða jafnvel á netinu. Eitt slíkt „mysteríum“ er þessi furðulega keðjuverkun sem fer í gang þegar þeir lægst launuðustu fá einhverja kjarabót. Þá fer alltaf sama maskínan í gang, sömu talsmenn auðvaldsins fara fram með sömu tugguna að einhver smávægileg kjarabót komi af stað launaskriði. Sem er furðulegt orð. En ef ég skil þetta rétt þýðir það að smávægileg leiðrétting lágra launa kalli á að allir aðrir verði að fá líka hærri laun. Þannig sýnist mér að einhverjar prósentuaukningar verði nauðsynlega að fást fram líka hjá þeim sem best standa peningalega. Nema auðvitað þeir sem skammta sér bara laun sjálfir, en það virðist vera grundvöllur fyrir því og almennt samþykki að einhverjir vissir aðilar geti bara hækkað laun sín einn tveir og þrír eftir hentugleikum. Þannig fer þetta, og auðvitað þeim lægst launuðustu að kenna, „beint út í verðlagið!“ Hvers vegna? Hvers vegna má ekki hækka laun þeirra sem þess þurfa án þess að þeir sem hafa það bara prýðilegt komi vælandi í kjölfarið til að betla út meiri pening? Af hverju er það gefinn og viðtekinn sannleikur að lagfæring lágra launa kalli á hækkun stýrivaxta, hækkun annarra launa og hækkun verðbólgu þannig að allt verði aftur eins og það var, fátækir verða fátækari og ríkir verða ríkari. Það eru engin rök fyrir því að þetta sé nauðsynlegt. Samt taka Íslendingar þessu, eins og öðru, þegjandi og hljóðalaust, liggjandi marflatir fyrir því sem er kallað lögmál markaðarins! Er það þá svo að markaðurinn sé einskonar guðleg vera sem setur mannfólkinu lögmál eins og Guð forðum daga? Kemur engin mannleg hönd að því að semja þessi lögmál? Þetta er eins og svæsnasta bókstafstrú kristins eða íslamsks öfgafólks. Og allir bara sáttir við að fylgja þessum nýja átrúnaði. Markaðurinn ræður. Og hverjum gæti dottið slík firra í hug að einhverjir gróðapungar hafi með þetta að gera? Kannski er ég eitthvað tregur, en þegar svona er komið þarf greinilega að koma til einhverra siðaskipta. Ekki myndi ég ætla mér hlutverk Marteins Lúthers en það kitlar. Einhver sem hefur eitthvað vit á innviðum markaðarins þarf nauðsynlega að koma fram með tillögur um úrbætur. Hver heilvita maður ætti að geta séð það í hendi sér að svívirðilegur ójöfnuður ber ekki vott um velferð. Að það er sjúkt þjóðfélag sem notast við einhverjar markaðsklisjur til að réttlæta eigið sjúka ástand, og þetta er fársjúkt þjóðfélag.

Það er bara ekki á nokkurn hátt viðsættanlegt að þarna úti í einhverju óskilgreindu kosmósi sé eitthvað óskilgreinanlegt afl sem segir svo til um að fátækir skuli verða fátækari og hinir ríku ríkari. Þannig virkar ekki heilbrigt þjóðfélag.

Sigurður Ingólfsson er rithöfundur og þýðandi

BRAVÓ BOLÉRO

Jón Hlöðver Áskelsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 06:00

Tekið slátur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
25. nóvember 2024 | kl. 11:30

Hangið aftan í

Jóhann Árelíuz skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00