Fara í efni
Pistlar

Kappsemin

Í byrjun árs eru margir sem setja sér markmið um það sem þeir ætla að áorka fyrir árslok. Ég er ein af þeim, setti saman markmiðalista í 15 liðum fyrir árið 2021. Þetta er skemmtileg hefð sem ber vott um kappsemi þótt allur gangur sé á hvort maður hafi úthald í að haga sér í samræmi við sett markmið allt árið.

Í gegnum tíðina hef ég verið frekar kappsöm manneskja og haft trú á eigin ágæti, mögulega einum of mikla trú að einhverra mati. Sem dæmi má nefna þegar ég skráði mig í samkvæmisdans fyrir byrjendur hjá Önnu Breiðfjörð með eiginmanninum. Mér fannst ég mjög fljót að ná öllum sporum, mun fljótari en Tóti minn sem er þó taktviss og hefur ágætlega samhæfðar hreyfingar. Þannig að ég var að leiðbeina honum og stjórnast enda var mér mikið í mun að við værum flottasta parið á gólfinu. Eftir nokkra tíma kom Anna stormandi til okkar í miðjum dansi og ég hugsaði kampakát „nú kemur það ... hún hefur tekið eftir hvað við erum glæsileg og við verðum færð upp í framhaldshópinn!“ En nei, það var nú ekki aldeilis erindið. „Jóna,“ sagði hún, „þú átt ekki að stjórna“. „Það er herrann sem stjórnar“. Og með það sama hafði hún af mér herrann í a.m.k. tvo danstíma meðan hún kenndi honum að stjórna og aðstoðarkennarinn kenndi mér að láta að stjórn.

Um jólin í fyrra fékk ég gönguskíði í jólagjöf. Ég fór strax að stunda æfingar af kappi, fór á námskeið og skrapp eins oft og ég mögulega gat í Hlíðarfjall eða Kjarnaskóg. Ein jákvæð vinkona hrósaði mér og sagði að ég væri sérlega fljót að ná tökum á þessari skemmtilegu íþrótt. Það þarf nú ekki meira til að blása mér kapp í kinn. Ég fór að skoða gönguskíðaföt fyrir atvinnufólk og bar undir vinkonu mína, reyndar aðra og jarðbundnari en þessa sem hrósaði mér. Hún hugsaði sig um og svaraði svo eins pent og henni var auðið, „Jóna, það er mikilvægt að maður klæði sig ekki þannig á gönguskíðin að fólk geri óraunhæfar væntingar til manns“. Ég viðurkenni að þetta var ákveðið kjaftshögg en það er ekki annað hægt en hlægja að sannleikanum í þessu.

Það er gott að setja sér markmið og enn betra þegar manni tekst að standa við þau. Kappsemi er góð upp að vissu marki en munum að hafa markmiðin okkar raunhæf. Gangi okkur vel á árinu 2021.

Jóna Jónsdóttir er „miðaldra kona á Brekkunni“

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Af dægurlagatextum

Skapti Hallgrímsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 08:00