KA-strákarnir urðu Íslandsmeistarar
KA varð Íslandsmeistari í blaki karla í kvöld þegar liðið sigraði Hamar úr Hveragerði 3:1 í KA-heimilinu. Þar með unnu KA-menn úrslitarimmuna 3:1 og fengu Íslandsbikarinn afhentan við mikinn fögnuð stuðningsmanna sem fjölmenntu á leikinn.
Þetta er sjöundi Íslandsmeistaratitill KA í karlaflokki. Liðið vann síðast 2019 en Hamar er Íslandsmeistari síðustu tveggja ára.
Ómetanlegur stuðningur
Birkir Freyr Elvarsson, fyrirliði KA, var að sjálfsögðu í sjöunda himni eftir að hann tók við Íslandsbikarnum. „Við unnum fyrst og fremst á liðsheildinni,“ sagði hann við Akureyri.net í miðri sigurgleðinni en sagði stuðningsmenn liðsins líka hafa skipt miklu máli í kvöld. „Það er ómetanlegt að hafa þennan stuðning á bak við sig hér í KA-heimilinu, alveg stórkostlegt.“
Birkir Freyr sagði KA-liðið hafa æft mjög vel á tímabilinu. „Við æfðum stíft og hart í allan vetur og liðið small vel saman, það skóp sigurinn. Við erum líka allir miklir vinir, bæði innan vallar og utan, sem skiptir miklu máli.“
Hörkuleikur
KA-menn byrjuðu af miklum krafti í kvöld, unnu fyrstu hrinuna 25:20 á 24 mínútum og þá næstu, sem tók 28 mínútur, einnig 25:20.
Hamarsmenn neituðu að játa sig sigraða, léku vel í þriðju hrinu og unnu hana mjög örugglega, 25:16, á aðeins 21 mínútu.
Mikil spenna var í fjórðu hrinunni lengi vel, KA náði síðan góðri forystu, 18:12, en Hvergerðingarnir lögðu eðlilega allt í sölurnar til þess að þurfa ekki að láta Íslandsbikarinn af hendi og minnkuðu muninn niður í eitt stig, 21:20 og 22:21. Nær komust þeir hins vegar ekki, KA-strákarnir spýttu í lófana á lokakaflanum, gerðu þrjú síðustu stigin og þar með var Íslandsbikarinn þeirra. Þeir stigu tilþrifamikinn sigurdans á gólfi KA-heimilisins og ekki að undra.
Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.
Íslandsmeistararnir ásamt nokkrum hörðum stuðningsmönnum eftir sigurinn í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Birkir Freyr Elvarsson, fyrirliði KA, sigri hrósandi í kvöld.
Miguel Mateo Castrillo smassar í kvöld. Hann hefur leikið gríðarlega vel undanfarið og hélt uppteknum hætti.