KA-menn töpuðu gegn Blikum í Kópavogi
KA tapaði 2:0 gegn Breiðabliki í áttundu umferð Bestu deildar karla í dag. Tvö mörk í upphafi síðari hálfleiks, frá Höskuldi Gunnlaugssyni og Gísla Eyjólfssyni urðu til þess að KA-menn fóru tómhentir heim.
KA-menn töpuðu stórt gegn Val, 4:0 í seinasta deildarleik eins og akureyri.net sagði frá HÉR. En í millitíðinni hafði liðið unnið sigur á HK í bikarkeppninni. Blikar höfðu verið á siglingu í deildinni undanfarið og unnið fjóra deildarleiki í röð fram að leiknum gegn KA.
Fyrri hálfleikurinn var jafn en ekki var mikið um opin færi. KA-menn voru meira með boltann og komu sér á köflum í góðar stöður. Ásgeir Sigurgeirsson fékk besta færi KA í hálfleiknum þegar hann slapp í gegn eftir mistök í vörn heimamanna. Anton Ari Einarsson var þó fljótur út úr markinu, gerði vel í að loka á færið og skot Ásgeirs fór í Anton. Staðan markalaus í hálfleik.
1:0
Það voru aðeins 33 sekúndur liðnar af seinni hálfleik þegar Breiðablik fékk vítaspyrnu. Steinþór Már Auðunsson gerðist þá sekur um slæm mistök. Gísli Eyjólfsson komst þá inn í misheppnaða sendingu hans, ætlaða Rodri. Gísli keyrði inn í teig þar sem Steinþór kom út á móti og felldi Gísla, vítaspyrna réttilega dæmd. Höskuldur Gunnlaugsson fór á vítapunktinn og skoraði af öryggi.
_ _ _
2:0
á 54. mínútu tvöfaldaði Gísli Eyjólfsson forystu Blika. Gísli fór illa með Bjarna Aðalsteinsson á miðsvæðinu og komst á ferðina. Hann hafði nóg pláss til að keyra upp völlinn og lét vaða þegar hann nálgaðist teiginn. Skot hans hafði viðkomu í Dusan Brkovic og hafnaði svo í slánni og inn. Glæsilegt mark og óverjandi fyrir Steinþór í markinu. Svekkjandi fyrir KA-menn því stuttu áður hafði Þorri Mar fengið gott færi til að jafna leikinn.
_ _ _
Eftir þessi mörk róaðist leikurinn töluvert. Ekki voru fleiri mörk skoruð og lokatölur því 2:0 fyrir Breiðablik.
Liðið hefur nú tapað þremur leikjum í deildinni í sumar. Á móti Val, Breiðabliki og Víkingi. Það er áhyggjuefni fyrir Hallgrím Jónasson þjálfara liðsins en þetta eru liðin sem KA-menn ætluðu sér að vera í samkeppni við í mótinu. Hann þarf ásamt liðinu að finna lausnir í leikjum gegn stærri liðum deildarinnar. Liðið fær strax tækifæri til þess á fimmtudag en þá mæta Víkingar frá Reykjavík í heimsókn á Greifavöllinn.
Stöðuna í deildinni má sjá HÉR