Jakob Franz þriðji Þórsarinn á Hlíðarenda
Þórsarinn Jakob Franz Pálsson hefur skrifað undir fjögurra ára samning við knattspyrnudeild Vals. Hann kemur til Vals frá Venezia á Ítalíu en lék sem lánsmaður með KR á síðasta tímabili.
Jakob Franz er tvítugur varnarmaður sem fór frá Þór til Venezia í febrúar árið 2021 og lék í stuttan tíma sem lánsmaður hjá Chiasso í Sviss áður en hann kom til KR fyrir síðasta tímabil.
Alls lék Jakob Franz 25 leiki og skoraði eitt mark fyrir KR í Bestu deildinni og hafði leikið 12 leiki fyrir Þór í 1. deild áður en hann hélt í atvinnumennsku. Þá hefur hann leikið fyrir öll yngri landslið Íslands, alls 28 leiki, og er hluti af U21-árs landsliðinu sem stendur.
Jakob Franz verður þriðji Þórsarinn í herbúðum Valsara. Birkir Heimisson, sem hóf að leika með meistaraflokki Þórs árið 2016 en fór sama ár í atvinnumennsku til Hollands, samdi við Val haustið 2019. Í vetur gekk svo unglingalandsliðsmaðurinn Bjarni Guðjón Brynjólfsson úr Þór til liðs við Val.
Vorum ekki í neinum vafa
„Jakob Franz er þannig leikmaður að þegar við sáum að það var möguleiki að fá hann vorum við ekki í neinum vafa. Hann er í grunninn bakvörður en getur leyst fleiri stöður t.d. í hjarta varnarinnar og sem djúpur á miðjunni, ekkert ósvipað því hlutverki sem Hlynur Freyr sinnti hjá okkur á síðasta tímabili. Þrátt fyrir ungan aldur er Jakob með heilt tímabil í efstu deild með KR þar sem hann spilaði frábærlega. Jakob Franz gæti orðið lykilmaður hjá okkur næstu árin,“ sagði Arnar Grétarsson, þjálfari Vals, í tilkynningu frá félaginu.
Duglegur og kraftmikill
„Umhverfið hjá Val er þannig að ég trúi því að ég geti haldið áfram að bæta mig sem leikmann og þróast í rétta átt. Hérna eru gæða leikmenn í öllum stöðum bæði inni á vellinum og í þjálfarateyminu,“ sagði Jakob Franz í tilkynningunni.
„Markmiðið er auðvitað alltaf að vinna og ég tel okkur klárlega vera með hópinn í að gera vel í sumar og svo viljum við líka standa okkur vel í Evrópu. Fyrir mig persónulega þá vil ég bæta mig og verða betri með hverjum leiknum og gera allt sem ég get til þess að skila góðum úrslitum.“
Aðspurður hvernig hann myndi lýsa sér sem leikmanni sagði Jakob Franz:
„Ég er duglegur og kraftmikill leikmaður sem gefst aldrei upp. Ég mun koma með mikla orku inn í liðið og á völlinn. Ég er mjög spenntur fyrir komandi tímum hjá Val.“