Fara í efni
Pistlar

Hversu mikið er nóg (miðað við höfðatölu)?

Við Íslendingar vorum sárafátæk þjóð langt fram á síðustu öld en höfum á síðustu áratugum farið úr því að vera ein fátækasta þjóð Evrópu í það að vera ein sú ríkasta. Helstu ástæðurnar eru fiskur, rafmagn og ál, og nú, á allra síðustu árum, ferðaþjónusta.

Fyrir vikið eigum við í dag mörg heimsmet og örugglega flest í heimi (miðað við höfðatölu). Kíló af fiski, kílówött af rafmagni, tonn af áli, tonn af úrgangi, tonn af olíu, tonn af CO2, stykki af ferðamönnum, stykki af fólksbílum. Við erum í toppsætum í öllu þessu – miðað við höfðatölu. Þrátt fyrir að vera örþjóð á afskekktri eyju, langt frá bestu ræktarskilyrðum, með fábreytta innlenda framleiðslu og verulega háð innflutningi á flestum vörum þá hefur okkur tekist að nýta auðlindir okkar með þeim hætti að velmegun í landinu er ein sú mesta sem þekkist á jörðinni. En því hefur líka fylgt mikil losun á gróðurhúsalofttegundum.

Til að mynda er enn í dag allur okkar fiskur veiddur og fluttur með olíu, öll tún slegin með olíu og öllu heyi pakkað inn í olíu, allir vöruflutningar til og frá landinu eru á olíu, ferðamenn ferðast til og frá og um landið á olíu, og flestir landsmenn fara allra sinna ferða á olíu.

Þessi sterka staða okkar er því algjörlega háð því að einhver framleiði olíu og selji okkur hluta af henni því við eigum enga olíu sjálf. Olía er endanleg auðlind, henni verður bara brennt einu sinni.

Á Íslandi er þegar í gangi fjölbreytt nýting á endurnýjanlegri orku og framleiðsla á eldsneyti. Eins og alþjóð veit framleiðum við allt okkar rafmagn með vatnsafli eða jarðvarma. Og undanfarin ár höfum við verið að auka framleiðslu á eldsneyti eins og metani, lífdísli, metanóli og vetni. Allar þessar „vörur“ geta komið í staðinn fyrir olíu.

Tæknilegar hindranir

Það eru engar tæknilegar hindranir í því að stórauka framleiðslu á því innlenda endurnýjanlega eldsneyti sem nú þegar er framleitt hér. Það eru heldur nánast engar tæknilegar hindranir í því að ljúka orkuskiptum á fólksbílum og í almenningssamgöngum og vöruflutningum á næstu 5 árum á Íslandi. Það mun ekki kæla hagkerfið – þvert á móti.

Við getum því auðveldlega flýtt banni á innflutningi á bensín- og dísilbílum til 2025; það mun aðeins hafa íþyngjandi áhrif á um 1% Íslendinga (sem gætu fengið undanþágu frá banninu). Þegar það gerist, og 200.000 fólksbílar á Íslandi sem keyra að meðaltali 12.000 km á ári eru komnir yfir á rafmagn, mun orkukostnaður neytenda lækka um 25 milljarða á ári, þjónusta haldast óbreytt (eða líklega batna), gjaldeyrisþörf minnka og losun á CO2 dragast saman um 400.000 tonn á ári. Þetta er á hverju ári. 250 milljarðar í minni samgöngukostnað neytenda á 10 árum er svipuð upphæð og kostnaður íslenska ríkisins á síðasta ári vegna aðgerða sem tengjast Covid.

En þessi tækifæri blasa ekki bara við okkur í samgöngum. Það eru heldur engar tæknilegar hindranir í því að stórauka fóður- og matvælaframleiðslu í landinu eða endurvinna/endurnýta allt plast sem fellur til á Íslandi, nú eða stórefla kolefnisbindingu með skógrækt um allt land.

Eins og áður segir erum við vissulega smáþjóð en það skýtur skökku við ef ríkri smáþjóð, sem á auðveldast allra þjóða á jörðinni með að vera sjálfbær, tekst það ekki. Ástæðurnar eru hvorki tæknilegar né fjárhagslegar, þær eru pólitískar.

Guðmundur Haukur Sigurðarson er tæknifræðingur og framkvæmdastjóri Vistorku.

Hús dagsins: Laxdalshús, Hafnarstræti 11. (230 ára í ár)

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 07:00

Keiluspil

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
13. janúar 2025 | kl. 11:30

Bixímatur

Jóhann Árelíuz skrifar
12. janúar 2025 | kl. 10:00

Geðheilbrigðisþjónusta – Skipulag, samvinna og stjórnun

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
12. janúar 2025 | kl. 09:00

„Aumingja þessi, öllum er sama um hann!“

Orri Páll Ormarsson skrifar
10. janúar 2025 | kl. 12:00

Desember 1915

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
09. janúar 2025 | kl. 21:00