Fara í efni
Fréttir

Hve margar eru kirkjutröppurnar?

Óhætt er að segja að tröppurnar við Akureyrarkirkju hafi verið vinsælar, jafnvel elskaðar. Myndir: Haraldur Ingólfsson

Hvort sem Snorrabúð er stekkur eða ei, eða hvort eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár sem tilbiður Guð sinn og deyr eða ekki, fer ekki á milli mála að frægustu tröppur Akureyrar og þó víðar væri leitað eru núna moldarbrekka með steypubrotum, setnar tveimur stórum Volvo-gröfum, lokaðar almenningi. Mögulega ekki rétt að segja að kirkjutröppurnar séu lokaðar því þær eru ekki lengur. Endurbygging trappanna stendur fyrir dyrum, en fyrst þurfti auðvitað að rífa þær gömlu, hjá því varð ekki komist. 

Ætli einhver hafi geymt brot úr gömlu tröppunum til minja? Kirkjan, Minjasafnið, Akureyrarbær, verktakarnir, ferðamenn? 


Napur norðanvindur næðir þessa dagana um blómin sem fylgjast með framkvæmdunum við tröppurnar. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Svarið við spurningunni, hve margar eru kirkjutröppurnar, verður því að vera á misgáfulegum nótum. Eru tröppur? Hvenær hætti steypan að vera tröppur? Verða tröppurnar sem koma þær sömu og þær sem voru? Verða þær jafn margar? Hve margar voru tröppurnar?


Tröppurnar horfnar og brekkan setin tveimur stórum Volvo-gröfum. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Hjáleiðin úr Hafnarstræti upp að Sigurhæðum er 74 þrep samkvæmt talningu tíðindamanns frá Akureyri.net. Eða voru þær 72? Þær voru taldar í gær og treyst á minnið, en svo komu báðar þessar tölur upp í hugann í morgun. Þegar að Sigurhæðum er komið eru svo reyndar tvö þrep niður áður en haldið er áfram framhjá Sigurhæðum upp fornan og nýlega endurnýjaðan göngustíg sem liggur að Eyrarlandsvegi, meðfram safnaðarheimili Akureyrarkirkju.

Tröppurnar voru 112. En það verða engar tröppur, að minnsta kosti ekki til notkunar fyrir almenning, fyrr en í fyrsta lagi í október.