Hlaupadrottningin Ingunn Einarsdóttir
GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – XVII
Ingunn Einarsdóttir var fyrsta afrekskona Akureyringa í frjálsíþróttum. Á þessari 17. gömlu íþróttamynd sem birtist á Akureyri.net kemur Ingunn lang fyrst í mark í keppni árið 1969 á Akureyrarveli. Ingunn sló rækilega í gegn það sumar, aðeins 14 ára gömul.
Myndin er úr safni Haraldar heitins Sigurðssonar, Lalla Sig, þess mikla íþróttafrömuðar og formanns KA um tíma, en ekki er vitað hver ljósmyndarinn var.
Ingunn var fædd árið 1955 og hóf að stunda frjálsíþróttir 12 ára með KA. Keppnisferillinn hófst sumarið eftir og fermingarárið, 1969, stökk hún upp á hinn íslenska stjörnuhiminn, 14 ára. Það ár setti Ingunn alls 10 Íslandsmet; fjögur í grindahlaupum, tvö í 400 metra hlaupi, tvö í 800 m hlaupi, eitt í 200 m hlaupi og það tíunda í fimmtarþraut. Sama ár varð hún Íslandsmeistari í tveimur greinum, 100 m hlaupi og langstökki.
Nei, en ég á dóttur ...
Skemmtileg saga er af því hvernig það kom til að Ingunn fór að æfa frjálsíþróttir. Sagan er á þá lund að Hreiðar Jónsson, vallarvörður á Akureyrarvelli og frjálsíþróttaþjálfari, hitti Einar Einarsson lögregluþjón fyrir tilviljun og spurði hvort hann ætti ekki son sem vildi æfa hlaup. Nei, svaraði Einar, en ég á dóttur sem er fljót að hlaupa.
Þetta stutta samtal breytti íþróttasögu Akureyrar. Ingunn mætti á æfingu til Hreiðars og ekki varð aftur snúið!
Ingunn flutti til Reykjavíkur árið 1972, aðeins 17 ára, til að æfa við betri aðstæður. Hún gekk í raðir ÍR-inga og var í mörg ár einn af burðarásum sterkrar frjálsíþróttasveitar ÍR sem vann bikarkeppni Frjálsíþróttasambandsins þetta sama ár og næstu 15 ár þar á eftir!
Lengi vel átti Ingunn Íslandsmetin í 100, 200 og 400 metra hlaupum, 100 metra grindahlaupi og fimmtarþraut, svo og bæði félags- og landsmet í boðhlaupum.
Ingunn lést langt fyrir aldur fram árið 2016, aðeins 61 árs.