Fara í efni
Íþróttir

Hafdís og Silja á HM í hjólreiðum

Silja Jóhannesdóttir og Hafdís Sigurðardóttir, HM-fararnir frá Hjólreiðafélagi Akureyrar. Myndin er af Facebook-síðu Akureyrardætra.

„Mitt draumamarkmið á keppnisferlinum er að klára stórmót,“ segir hjólreiðaafrekskonan Hafdís Sigurðardóttir sem stödd er í Glasgow að undirbúa sig fyrir þátttöku í Heimsmeistaramótinu í hjólreiðum. Það hljómar einfaldara en það er, „að klára stórmót“, því þegar hjólað er í stórum hópum er reglulega skorið niður og öftustu keppendur ljúka keppni einhvers staðar á miðri leið, ef þannig má orða það.

Tvær frá Hjólreiðafélagi Akureyrar

Hafdís tekur þátt í tveimur greinum, tímatöku á fimmtudag og götuhjólreiðakeppni á sunnudaginn, en önnur hjólreiðakona frá Akureyri, Silja Jóhannesdóttir, fer utan á morgun og tekur þátt í keppninni á sunnudaginn. Þær tvær eru raunar hluti af þriggja kvenna liði sem tekur þátt í götuhjólreiðakeppninni ásamt Kristínu Eddu Sveinsdóttur frá Hjólreiðafélagi Reykjavíkur.

Áður en kemur að götuhjólreiðakeppninni tekur Hafdís þátt í 36 km langri tímatökukeppni sem fram fer í Sterling. Þar eru keppendur ræstir einn í einu með ákveðnu millibili og einbeitingin er því mest á sjálfa sig, halda sínum hraða og gera eins vel og hver getur. 

„Í tímatökukeppninni ertu að hjóla ein, mátt ekki nota kjölsog af öðrum keppendum og ert bara að hugsa um að gera þitt besta, lítið hægt að hugsa um aðra keppendur, bara hjóla og klára sig í brautinni,“ segir Hafdís.

Gríðarlega krefjandi braut

Eitthvað á annað hundrað konur taka þátt í Elite-flokknum í götuhjólreiðakeppninni á sunnudaginn, margar þeirra með mikla reynslu og stunda hjólreiðarnar að atvinnu. Við ræsingu er liðunum raða eftir röðun á heimslistanum og eru okkar konur þar með öftustu keppendum þegar ræst er.


Rauði punkturinn á stærri myndinni sýnir upphafsstaðinn við Loch Lomond, þaðan sem hjólað er í stóran boga í norðaustur, austur og svo suður í átt að Glasgow-borg. Af rúmum 154 kílómetrum eru um 60 km utan borgarinnar (blái hluti leiðarinnar) og síðan sex 15 km hringir inni í borginni (rauði hlutinn). Innfellda myndin er skjáskot af vef mótsins. Ef smellt er á myndina opnast síðan þar sem myndin og ítarlegri upplýsingar um mótið er að finna.

Þegar Akureyri.net heyrði í Hafdísi hafði hún fyrr í dag farið æfingaferð um borgarhringinn, þann hluta keppnisbrautarinnar sem er inni í Glasgow. Lokað var fyrir umferð þannig að keppendur fengu tækifæri til að hjóla leiðina án truflunar. „Þetta er gríðarlega krefjandi braut, mikið um hækkanir og bara mjög erfið braut,“ segir Hafdís eftir æfingarnar í morgun. Brautin er að hluta lögð hellusteinum sem gera keppendum alls ekki auðveldara fyrir. „Við krossum bara fingur að fá ekki rigningu,“ segir Hafdís. Brautin er alveg nógu erfið þó veðrið fari ekki að hafa áhrif líka.


Hér má sjá götuhjólreiðaleiðina í hnotskurn. 

Barátta við að forðast niðurskurðinn

„Mitt draumamarkmið á keppnisferlinum er að ná að klára stórmót, það er risamarkmið. En þá þarf allt að spilast mér í hag og ég að ná mínu allra besta,“ segir Hafdís. Hún segir klárlega markmið á sunnudaginn að ná að komast inn í bæinn þar sem hjólaðir eru sex hringir og ná einhverjum þeirra, „en það væri draumur, rosastór, að ná að klára,“ segir hún.

Tímatökubrautin er 36 kílómetrar, en götuhjólreiðakeppnin samtals 154 kílómetrar hjá þeim sem ná að klára. Götuhjólreiðakeppnin hefst í Loch Lomond, þaðan sem hjólað er inn til Glasgow-borgar, þar er 15 kílómetra hringur hjólaður sex sinnum og endað á George Square.

Í götuhjólreiðakeppninni er stóra markmiðið að klára keppnina því fyrirkomulagið er þannig að reglulega er fækkað í hópnum. Það skiptir því öllu máli að halda dampi og vera ekki of langt á eftir þeim fremstu. Í því sambandi er líka mjög til framdráttar að forðast bilanir og óhöpp því viðgerðartafir taka bæði tíma og orku þegar ná þarf aftur í skottið á hópnum.

Læra og styrkjast með hverju móti

Hafdís hefur áður farið tvisvar á Evrópumót og bætir í reynslubankann með hverri ferð. „Maður er alltaf að taka með sér reynslu úr hverju móti, en þetta fer líka eftir því hvernig brautirnar eru.“

Hún segir stress yfir stærð og umfangi keppnanna ekki hafa háð sér í Evrópumótunum 2021 og 2022. „Ég ræð ágætlega vel við það og ekki mikið að stressa mig á hlutunum. Mér hefur gengið vel að takast á við það, en auðvitað er alltaf einhver spenna og stress, þetta er risastórt og það hefur áhrif.“

Hún segir þær Silja hafa náð að bæta sig mikið ár frá ári. „Við höfum verið duglegar að fara á mót erlendis, bara til að þjálfa þetta að hjóla í svona stærri hópum og komast á hærra stig. Við erum svo fáar heima í þessari getu að við fáum aldrei þessar aðstæður,“ segir hún og vísar þar til þess að hjóla í stórum hópum þar sem hún er að keppa við atvinnukonur í íþróttinni sem eru að keppa í stórum mótum nánast í hverri viku mestan hluta ársins, margar þeirra núna nýkomnar frá því að keppa í Tour de France.

„Við erum bara smá peð,“ segir Hafdís og á þar bæði við reynslu íslensku keppendanna sem og stærð og umgjörð sem hver þjóð hefur um sitt lið.

  • Á morgun: Ekki hægt án fjölskyldunnar