Fara í efni
Íþróttir

Vinsældir fjallabruns aukast jafnt og þétt

Myndir: Barði Westin

Fjórða bikarmót sumarsins í fjallabruni fór fram á Akureyri um helgina. Hjólreiðafélag Akureyrar (HFA) stóð fyrir keppninni sem fór í Hlíðarfjalli ofan við Akureyri.

Keppt var í kvenna og karlaflokki, í sjö flokkum og voru 43 keppendur skráðir til leiks. Tvær umferðir voru farnar, markmiðið í greininni er að komast niður brautina á sem skemmstum tíma og betri tími hvers keppanda gildir.

Mikið er lagt uppúr öryggi á meðan á keppni stendur en keppendur þurfa að klæðast viðamiklum hlífðarbúnaði sem lágmarkar meiðsl falli þeir af hjólunum. Brautarverðir og viðbragðsaðilar stóðu vaktina á keppnisdegi til að tryggja öryggi keppenda og áhorfenda.

Þrátt fyrir að veðrið í sumar hafi ekki verið eins og best verður á kosið hafa félagsmenn HFA og aðrir velunnarar unnið ötullega að því að halda svæðinu í Hlíðarfjalli í góðu ásigkomulagi og aðstæður voru góðar þegar keppnin fór fram. 

Hlíðarfjall er þekktast fyrir að vera eitt flottasta skíðasvæði landsins en á sumrin nýtist það í margskonar útivist. Vinsældir fjallahjólaiðkunar hafa aukist verulega síðustu ár og hefur HFA í samstarfi við Akureyrarbæ byggt upp fjölbreyttar leiðir í Hlíðarfjalli, Kjarnaskógi og á svæðinu við Fálkafelli svo fátt eitt sé nefnt. Fjölmargir sjálfboðaliðar koma að uppbyggingu og viðhaldi þessara hjólaleiða árið um kring og eru þeir ótaldir tímarnir sem þarf til að halda mót sem þetta, að sögn skipuleggjenda.

Akureyrarbær hefur síðustu þrjú ár komið til móts við félagið vegna uppbyggingar á hjólagarðinum í Hlíðarfjalli en farið var að selja ferðir í stólalyftu skíðasvæðisins til að gera brautirnar aðgengilegri fyrir almenning. Stuðningur sveitarfélagsins gerir félaginu kleift að byggja upp enn frekar þær frábæru hjólaleiðir sem leynast í brekkum Hlíðarfjalls og víðar, að sögn forkóla fjallahjólreiðanna, og aðsóknin eykst á ári hverju.

Yngsti flokkurinn er U11, en í honum voru þrír keppendur, þeir Róbert Máni Bjarkason, Frosti Ásþórsson og Hafþór Andri Þorvaldsson, sem allir fengu þátttökuverðlaun.

Sigurvegarar á mótinu í öðrum flokkum voru þessir:

  • Björgvin Jóhann Eggertsson, HFA, í flokki U13 karla
  • Sylvía Mörk Kristinsdóttir, HFA, í U15 flokki kvenna
  • Anton Ingi Davíðsson, HFA, í U15 flokki karla
  • Hlynur Snær Elmarsson, HFA, í U17 flokki karla
  • Björn Andri Sigfússon, HFA, í U19 flokki karla
  • Kristinn Magnússon, HFA, í 35+ flokki karla
  • Sól Snorradóttir, HFR, í A-flokki kvenna
  • Jökull Þór Kristjánsson, HFR, í A-flokki karla