Fara í efni
Menning

Gamli skóli – „Lifandi húsið“ – 120 ára

Mynd: Hallgrímur Einarsson 1908/Minjasafnið á Akureyri

GAMLI SKÓLI – LIFANDI HÚSIÐ

Í þessum mánuði eru 120 ár síðan hið gamla, glæsilega skólahús Menntaskólans á Akureyri var tekið í notkun. Gamli skóli á brekkubrúninni ofan við Barðsnef er eitt af helstu táknum Akureyrar og án efa eitt allra fegursta timburhús landsins.

Gamla skóla eru gerð falleg skil í bókinni Lifandi húsið – saga gamla skólahúss Menntaskólans á Akureyri eftir Tryggva Gíslason, fyrrverandi skólameistara, sem Völuspá gaf út árið 2013 í samvinnu við skólann.

Tryggvi Gíslason var skólameistari Menntaskólans á Akureyri frá 1972 til 2003. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Í bókinni er reynt að segja sögu hússins í myndum, eins og Tryggvi orðar það í formála, og óhætt að segja að vel takist til. Margar myndanna eru afar skemmtilegar og Tryggvi leggur til margvíslegan fróðleik um húsið og fólkið sem þar hefur starfað og stúderað.

Bókin skiptist í marga stutta kafla og í tilefni afmælisins birtir Akureyri.net nokkra þeirra, með góðfúslegu leyfi Tryggva og Jóns Hjaltasonar, forleggjara hjá Völuspá. Hér að neðan er formáli bókarinnar, fyrsti kaflinn verður birtur í hádeginu og síðan einn á dag út mánuðinn.
_ _ _

Formáli Tryggva Gíslasonar að bókinni er svohljóðandi:

Í þessari bók er reynt að segja sögu gamla skólahúss Menntaskólans á Akureyri í myndum. Til þess liggja ýmsar ástæður. Í fyrsta lagi er húsið með fegurstu timburhúsum á Íslandi, glæsilegur fulltrúi svokallaðra Sveitserhúsa. Í öðru lagi var húsið stórvirki í húsasmíði á sínum tíma sem eitt stærsta hús landsins og veglegasta skólahús sem reist hafði verið hér á landi. Í þriðja lagi hefur svipfagurt útlit þess lengi sett svip á bæjarmynd Akureyrar og vakið eftirtekt þar sem það stendur á brekkubrúninni ofan við Barðsnef. Síðast en ekki síst hefur húsið þá sérstöðu að vera fyrsta – og lengi eina hús Menntaskólans á Akureyri og í hugum margra tákn skólans – verið Menntaskólinn á Akureyri, þar sem hjarta hans slær og sál hans býr, enda hefur húsið um langt skeið verið tákn þessarar gömlu menntastofnunar.

Reynt var að velja myndirnar á þann hátt að fram komi að húsið er lifandi. Með því er við það átt að húsið hefur breyst og þroskast með  aldrinum – tekið tillit til nýrra aðstæðna – og svipar af þeim sökum til lifandi veru sem vex og þroskast og verður með aldrinum betur fær um að gegna hlutverki sínu, eflist með aldri, þroska og aukinni reynslu. Þá hefur umhverfi hússins breyst mjög frá því sem var í upphafi þar sem húsið stóð eitt og sér, fjarri annarri byggð, og kemur það glöggt fram á myndum bókarinnar. En auk þess sem reynt er að segja sögu skólahússins í myndum og máli er brugðið upp svipmyndum af lífinu í þessu lifandi húsi og lýst að nokkru margbreytilegu starfi sem í húsinu var unnið í heila öld og birtar myndir af einstaklingum sem áttu þar heimili og unnu þar ævistarf sitt.

Stundum hefur verið spurt hvað skóli væri. Ekkert eitt svar er til við þeirri spurningu, enda er skóli margt. En skóli er ekki síst samfélag – oft samfélag fólks á ungum aldri – og skóli er andblær, hugsun, þroski og viðhorf. En skóli er einnig hús, þótt fyrstu skólar í Evrópu hafi ekki verið í húsi. Í gamla húsi Menntaskólans á Akureyri – Gamla skóla – hefur um langan aldur verið samfélag sem einkennst hefur af samvinnu nemenda og kennara þar sem ríkt hefur andblær með sterkum hefðum og því ákveðna viðhorfi að samlíðan, vinátta og félagslíf skiptir máli fyrir skólasamfélag, ekki síður en nám og kennsla, til þess að þroska nemendur og gera þá færa um að taka þátt í lýðræðisþjóðfélagi í stöðugri þróun og efla með þeim sanna menntun og mannvirðingu. Um þetta starf hefur Gamli skóli vafið örmum. 

Akureyri í ágúst 2013Tryggvi Gíslason