Gamla íþróttamyndin – 1.500 m hlaup 1951
GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – III
Tvær fyrstu gömlu íþróttamyndirnar sem birst hafa á Akureyri.net síðustu laugardaga hafa fallið í afar góðan jarðveg. Gaman er og gefandi að fá jafn mikil viðbrögð lesenda og raun ber vitni.
Á fyrri myndinni púttaði Jóhann Þorkelsson héraðslæknir á gamla golfvellinum við Þórunnarstræti á Akureyri og síðasta laugardag birtist mynd af kvennaliði ÍBA í handbolta sem tekin var árið 1956. Ekki tók langan tíma að nafngreina alla leikmennina – smellið hér til að sjá nöfnin.
Mynd dagsins er tekin árið 1951 við upphaf keppni í 1. 500 metra hlaupi á íþróttavellinum við Hólabraut á Akureyri. Það liggur fyrir vegna þess að þær upplýsingar voru skrifaðar á myndina.
Ritstjóri Akureyri.net fékk þessa mynd, eins og fjölmargar aðrar, frá Haraldi heitnum Sigurðssyni sem í áratugi vann ötullega að íþróttum í bænum, ekki síst frjálsíþróttum. Haraldur – Lalli Sig – er frakkaklæddur lengst til vinstri á myndinni, án efa með skeiðklukku í hönd. Hlauparinn í miðjunni er líklega Hreiðar Jónsson, sem starfaði einmitt á íþróttavellinum í áratugi.
Þekkir þú, lesandi góður, hlauparana og starfsmennina? Kanntu jafnvel einhverjar skemmtilegar sögur frá frjálsíþróttum á Akureyri á árum áður.
Vinsamlega sendið allar upplýsingar á netfangið skapti@akureyri.net – það væri ómetanlegt aðstoð í þeirri viðleitni að safna saman sem mestum fróðleik um íþróttalífið í bænum á árum áður.