Fara í efni
Fréttir

Frægustu tröppum bæjarins mokað burt

Mynd af vef Akureyrarbæjar: Oksana Chychkanova.

Mjög viðamiklar framkvæmdir eru hafnar við kirkjutröppurnar neðan Akureyrarkirkju og næsta umhverfi, eins og Akureyri.net hefur greint frá. Svæðinu hefur verið lokað og verður svo fram í október að talið er.

Þessi merkilega mynd birtist á vef Akureyrarbæjar í morgun – tekin eftir að hafist var handa við að moka burt þessum frægustu tröppum bæjarins og þótt víðar væri leitað.

Rétt er að rifja upp það helsta sem þarna er á seyði:

  • Núverandi kirkjutröppur verða fjarlægðar og allt sem þeim tilheyrir.
  • Neðri hluti trappanna er ofan á þakplötu húsnæðis sem hýsti áður almenningssalerni og þarf að hreinsa allan jarðveg ofan af því niður að þakplötu, vatnsþétta hana með ábræddum pappa, jarðvegsfylla að nýju og steypa nýjar tröppur þar ofan á með hellulögðum millipöllum.
  • Efri hlutinn verður síðan steyptur upp ofan á fyllingu og tröppurnar lagðar granítskífum.
  • Í verkinu felst að setja snjóbræðslukerfi í tröppur og palla og lýsingu við tröppurnar.
  • Einnig verða settar niðurfallsrennur og dren frá öllum pöllum í tröppunum og það tengt fráveitukerfi.
  • Grafið verður frá vegg ofan við göngin undir kirkjutröppurnar, hann vatnsþéttur og komið fyrir drenlögnum við vegginn.
  • Stígurinn til suðurs frá kirkjutröppunum að Sigurhæðum verður byggður upp með viðunandi hætti.

Frétt Akureyri.net í gær: Framkvæmdir hafnar, kirkjutröppunum lokað