Fara í efni
Pistlar

Flóttafólk og innflytjendur

RAUÐI KROSSINN - V

Fjöldi fólks sem undanfarið hefur neyðst til að yfirgefa heimkynni sín og leggja á flótta hefur aldrei verið meiri. Margt bendir til þess að flóttafólki og farendum muni halda áfram að fjölga verulega á næstu árum. Flóttafólk kemur víða að en fjöldinn jókst mikið á síðasta ári þegar vopnuð átök brutust út í Úkraínu, auk þess sem mikill fjöldi Venesúelabúa hefur undanfarin ár þurft að leggja á flótta vegna ofbeldis, óöryggis og skorts á nauðsynjum þar í landi.

Mikilvægt er að hlúa vel að flóttafólki og muna að um er að ræða venjulegt fólk sem hefur þurft að flýja mikla neyð, ofbeldi og erfiðleika. Ekki síður er mikilvægt að veita þeim sem komið hafa frá öðrum heimshlutum aðstoð við að fóta sig í íslensku samfélagi og ýta undir möguleika þeirra á að gerast virkir meðlimir samfélagsins. Áherslur Rauða krossins á Íslandi í málefnum fólks á flótta lúta að aðstoð í gagnkvæmri aðlögun og sálfélagslegum stuðningi og leggur Rauði krossinn áherslu á að fólk búi við öryggi, heilbrigði og mannsæmandi skilyrði, ásamt því að hafa tækifæri til að dafna.

Leiðsöguvinir

Flóttafólk á Íslandi vill flest kynnast Íslendingum til að stækka félagslegt net sitt, til að spyrja spurninga um lífið á Íslandi eða vegna þess að það er gaman að eignast vini og kunningja á nýja staðnum. Þú getur aðstoðað þessa einstaklinga eða fjölskyldur með því að gerast leiðsöguvinur.

Leiðsöguvinir eru sjálfboðaliðar sem taka að sér að hitta og kynnast einstaklingum eða fjölskyldum sem nýlega hafa hlotið alþjóðlega vernd á Íslandi. Leiðsöguvinir verða vinir þeirra nýkomnu, svara spurningum um lífið á Íslandi, ræða við þau um íslenska menningu og hefðir og hvað annað sem þátttakendum býr í brjósti. Þeir byggja brýr á milli fólks með ólíkan bakgrunn og hjálpa þeim að finna sinn stað á Íslandi. Leiðsöguvinir vísa flóttafólki veginn í nýju samfélagi.

Markmið verkefnisins er gagnkvæm félagsleg aðlögun. Þátttakendur eignast nýja vini, styrkja tengslanet sitt, öðlast innsýn í íslenskt kerfi og læra um menningu og hefðir hvers annars.

Leiðsöguvinir hittast í 4 til 6 klukkustundir á mánuði og gert er ráð fyrir að verkefnið vari í 6 til 12 mánuði. Mælt er með því að hittast vikulega. Þátttakendur ákveða í sameiningu hvenær og hvar þeir hittast. Til dæmis er hægt að hittast á bókasöfnum, kaffihúsum eða á heimilum hvers annars.

Þjálfun í íslensku

Mörg þeirra sem hingað flytja vilja gjarnan bæta íslenskukunnáttu sína vegna þess að hún gerir þeim kleift að byggja upp sterk og varanleg tengsl við samfélagið. Kunnáttan veitir einnig betra aðgengi að íslensku kerfi og vinnumarkaði og greiðir leið fólks til að sækja sér frekari menntun. Þú getur aðstoðað við þetta með því að verða íslenskuvinur.

Sjálfboðaliðar hitta einstaklinga með það að markmiði að æfa íslensku. Hægt er að notast við óformlegt spjall eða aðrar æfingar sem henta hverju sinni. Það má til dæmis leggja áherslu á orðaforða sem tilheyrir ákveðinni iðn eða menntun eða orðaforða sem auðveldar samskipti foreldra við skólakerfið. Sjálfboðaliðar geta einnig stutt við þau sem eru í formlegu íslenskunámi með því að aðstoða við heimanám. Þetta eru bara hugmyndir að þeim fjöldamörgu leiðum sem hægt er að fara þegar æfa á íslensku.

Hlutverk sjálfboðaliðans er ekki að vera kennari. Sjálfboðaliðarnir eru venjulegir Íslendingar, eins og þú, sem hafa áhuga á að deila orðaforða íslenskrar tungu með öðrum. Hægt er að hittast á bókasafni eða á heimili viðkomandi og gert er ráð fyrir að hist sé í hverri viku, klukkutíma í senn.

Félagsmiðstöð flóttafólks

Nýjasta verkefni Eyjafjarðardeildar Rauða krossins er að þróa félagsmiðstöð sem hefur það hlutverk að efla félagslega virkni, stuðla að inngildingu í samfélagið og bæta andlega líðan fólks sem verið hefur á flótta. Í félagsmiðstöðinni getur flóttafólk komið saman og stundað tómstundaiðju en einnig verður þeim boðið að kynnast því félagsstarfi sem þegar er í boði á svæðinu.

Viltu taka þátt?

Miðvikudaginn 15. febrúar verður haldið námskeið fyrir nýja sjálfboðaliða í starfi með flóttafólki og innflytjendum. Þú getur skráð þig á námskeiðið hér. Ef þú vilt taka þátt í öðrum verkefnum getur þú fyllt út umsókn á vefnum okkar raudikrossinn.is, haft samband með tölvupósti á soleybs@redcross.is eða hringt í síma 570-4270.

--

Rauði krossinn á Íslandi tilheyrir allri þjóðinni, en án stuðning hennar getur félagið ekki sinnt þeim fjölmörgu mikilvægu verkefnum sem það stendur fyrir, samfélaginu til góðs. Hjálpaðu okkur að hjálpa öðrum með því að gerast Mannvinur.

Hið kvenlega og ljóðræna keisaratré

Sigurður Arnarson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 09:30

BRAVÓ BOLÉRO

Jón Hlöðver Áskelsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 06:00

Tekið slátur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
25. nóvember 2024 | kl. 11:30

Hangið aftan í

Jóhann Árelíuz skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00