Fara í efni
Íþróttir

Fimm leikmenn semja áfram við Þór

Myndir af vef Þórs: Kristófer, Hermann Helgi, Elmar Þór, Ýmir Már og Birgir Ómar.

Fimm leikmenn Þórs hafa framlengt samning við knattspyrnudeild félagsins; Birgir Ómar Hlynsson, Elmar Þór Jónsson, Hermann Helgi Rúnarsson, Kristófer Kristjánsson og Ýmir Már Geirsson. Þetta var tilkynnt í dag.

Á heimasíðu Þórs segir um leikmennina:

Birgir Ómar Hlynsson (f. 2001) - Birgir Ómar gerir nýjan samning sem gildir út árið 2026. Birgir Ómar er 22 ára gamall varnarmaður sem hefur leikið 70 leiki fyrir meistaraflokk Þórs og skorað eitt mark. Birgir Ómar fór upp í gegnum alla yngri flokka Þórs og hefur allan sinn feril í meistaraflokki leikið með Þór.

Elmar Þór Jónsson (f. 2002) - Elmar Þór gerir nýjan samning sem gildir út árið 2025. Elmar er 21 árs gamall örvfættur varnarmaður sem hefur leikið 83 leiki fyrir meistaraflokk Þórs og skorað þrjú mörk. Elmar hefur leikið 17 landsleiki fyrir yngri landslið Íslands. Elmar fór upp í gegnum alla yngri flokka Þórs og hefur allan sinn feril í meistaraflokki leikið með Þór en hefur einnig leikið í háskólaboltanum í Bandaríkjunum.

Hermann Helgi Rúnarsson (f. 2000) - Hermann Helgi gerir nýjan samning sem gildir út árið 2025. Hermann er 23 ára gamall miðjumaður sem hefur leikið 114 leiki fyrir meistaraflokk Þórs. Hermann hefur leikið þrjá landsleiki fyrir yngri landslið Íslands. Hermann fór upp í gegnum alla yngri flokka Þórs og hefur allan sinn feril í meistaraflokki leikið með Þór. 

Kristófer Kristjánsson (f. 2004) - Kristófer gerir nýjan samning sem gildir út árið 2026. Kristófer er 19 ára gamall sóknarmaður sem hefur leikið 60 leiki fyrir meistaraflokk Þórs og skorað í þeim sjö mörk. Kristófer hefur leikið tvo landsleiki fyrir yngri landslið Íslands. Kristófer fór upp í gegnum alla yngri flokka Þórs og var að klára 2.flokk nú í haust en hefur sem fyrr segir leikið með meistaraflokki undanfarin ár.

Ýmir Már Geirsson (f. 1997) - Ýmir Már gerir eins árs samning sem gildir út árið 2024. Ýmir Már er 26 ára gamall fjölhæfur leikmaður sem gekk í raðir Þórs fyrir síðasta tímabil og lék níu leiki en hann hefur leikið alls 87 leiki fyrir KA, Magna og Þór á meistaraflokksferli sínum og skorað níu mörk. Þar af hefur Ýmir leikið 26 leiki í efstu deild auk þess að hafa leikið í háskólaboltanum í Bandaríkjunum. Ýmir meiddist síðasta sumar sem hélt honum fjarri góðu gamni stóran hluta sumarsins. Hann hefur sinnt endurhæfingu sinni vel og er klár í slaginn fyrir komandi tímabil.