Fara í efni
Pistlar

Fíknir

Margt og mikið hefur verið sagt og skrifað um fíknivandamál. Til dæmis þetta:

Vísbendingar um fíkn

Settar hafa verið fram sex vísbendingar sem hjálpa til við að greina hvort um fíkn sé að ræða.

1. Fyrirbærið sem löngunin snýst um, hvort sem það er áfengi, matur, spilakassar, klám, kynlíf eða hvaðeina, vekur þráhyggjuhugsanir og veldur áráttu.

2. Fíkillinn er heltekinn af því sem fíkn hans snýst um.

3. Hegðun fíkilsins snýst fyrst og fremst um að svala löngun sinni og fullnægja þörfum sínum.

4. Löngunin einkennist af stjórnleysi. Hugsanir, tilfinningar, hugmyndir og hegðun fíkilsins eru órökréttar og stjórnlausar í sambandi við allt er snýr að fíkninni. Jafnvel þegar hann reynir að hætta, mistekst honum. Það er eitt aðaleinkenni vanabindingar.

5. Fíkillinn er háður, líkamlega og/eða andlega og einungis það efni eða hegðun sem hann sækir í getur fullnægt honum þó slík fullnægja sé aðeins tímabundin.

6. Fíknin leiðir alltaf til niðurrifs og hefur neikvæðar afleiðingar.

Þetta er vafalaust allt rétt en samt finnst mér vanta eina mjög áberandi en óumtalaða fíkn en það er peningafíkn. Hún fellur undir allar þessar skilgreiningar. Það sést til dæmis í kjarabaráttu Eflingar við peningafíklana. Þeir hugsa um sína fíkn og eru helteknir af prívatgróða en ekki almennings. Engin rökhyggja er á bak við hugsanir og gjörðir og allar ákvarðanir leiða til niðurrifs og neikvæðra afleiðinga. Það er fíkn þessara einstaklinga sem hrekur fólk til að vera með inngrip í veruleika fíklanna, leggja niður vinnu og beita þeim einu ráðum sem hugsanlega geta komið fíklunum til þess að hugsa um að jafnvel sé betra að lifa í þjóðfélagi sem er ekki sérhannað fyrir þeirra fíkn. Meðferðarúrræði virðast ekki vera til staðar, enda landinu stýrt af sömu fíklum. Og eins og ég hef áður sagt, þá virðast þessir fíklar vera sem helgir menn í þjóðfélagi meðvirkra sjúklinga sem kjósa yfir sig sömu (ég myndi segja drulludela ef ég kynni mig ekki) fíkla með reglulegu millibili. Þeir sem eru alveg að kafna úr meðvirkni, skammast út í verkföll sem þeir kalla tillitsleysi gagnvart almenningi, en gera sér í sömu mund enga grein fyrir því að verkföllin eru afleiðing þess að fíklarnir eru helteknir af eigin gróða, alveg óháð því sem þjóðfélaginu væri fyrir bestu. Einhverra hluta vegna finnst mér þetta afskaplega furðulegt.

Elvis skáldhundur heitinn sendi mér hugskeyti úr hundaparadísinni með þessari vísu:

Alveg finnst mér öfugsnúið
hvað ekki er hægt að ræða!
Það virðist öllum óumflúið
að einn hann þurfi að græða
svo öðrum sé sitt öllu rúið
og einingu þurfi að blæða.

Sigurður Ingólfsson er rithöfundur og þýðandi

BRAVÓ BOLÉRO

Jón Hlöðver Áskelsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 06:00

Tekið slátur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
25. nóvember 2024 | kl. 11:30

Hangið aftan í

Jóhann Árelíuz skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00