Fagnaðarskref – dropinn holar steininn

Það er ánægjulegt að sjá jákvæðar breytingar eiga sér stað í menntakerfinu okkar. Það er mikilvægt að sjá að þegar mál eru tekin af festu og af einlægum áhuga er hægt að ná fram raunverulegum breytingum. Á síðasta ári fékk ég símtal frá áhyggjufullu foreldri þar sem útlit var fyrir að barnið hans kæmist ekki í inntökupróf í læknisfræði sökum veðurs. Í framhaldi af þessu sendi ég inn fyrirspurn til fyrrverandi háskóla og nýsköpunarráðherra í tengslum við fjölgun próftökustaða til háskólanáms sem tengjast læknisfræði, sjúkraþjálfunarfræði og tannlæknisfræði en núverandi fyrirkomulag krefst þess að allir próftakar mæti til Reykjavíkur.
Fyrsta skrefið í fjölgun próftökustaða
Nú ári síðar er verið að bregðast við þeirri áskorun og fyrsta skrefið verður tekið í vor að fjölga próftökustöðum.
Þetta er mikilvægt framfaraskref fyrir nemendur á landsbyggðinni. Það skiptir miklu máli að menntakerfið sé í stakk búið að taka tillit til námsmanna, hvar sem þeir eru staddir á landinu enda er tækni og þekking á slíkum aðstæðum til staðar.
Nemendur leggja í langar og kostnaðarsamar ferðir til Reykjavíkur til að þreyta inntökupróf og það er staðreynd að langar vegalengdir, aukinn ferðakostnaður og ófyrirsjáanleg veðurskilyrði geta skapað verulegar hindranir fyrir landsbyggðarnema sem vilja sækja háskólanám.
Áframhaldandi þróun og metnaður til framtíðar
Það er nauðsynlegt að við höldum áfram á þessari braut og metum árangurinn af þessari breytingu. Fyrstu skrefin eru tekin með því að bjóða upp á próftöku á Akureyri í vor, og það verður fróðlegt að sjá hvernig þessi reynsla nýtist sem vonandi leiðir til þess að próftökustöðum verður fjölgað enn frekar í framtíðinni. Staðir eins og m.a. Ísafjörður, Egilsstaðir og Hornafjörður hafa þegar reynslu af því að veita háskólaþjónustu og sjá um prófaumsýslu í samstarfi við Háskóla Íslands og aðrar háskólastofnanir. Markmiðið hlýtur að vera að byggja upp kerfi sem tryggir að nemendur um allt land hafi sömu möguleika til náms, óháð búsetu þeirra.
Jákvæð þróun í menntamálum
Stefna okkar í Framsókn er alveg skýr hvað þetta varðar, að tryggja öllum sama rétt og tækifæri til menntunar óháð aðstæðum. Þessi jákvæðu skref sýna að þegar tekið er á málum af festu og vilja er hægt að ná raunverulegum árangri. Ég vil þakka rektor Háskóla Íslands og öðrum sem hafa unnið að þessari breytingu fyrir að hlusta og grípa til aðgerða. Það er von mín að þessi þróun haldi áfram og að fleiri framfaraskref verði tekin á næstu árum til að tryggja enn betra aðgengi að háskólanámi fyrir alla landsmenn.
Ingibjörg Isaksen er formaður þingflokks Framsóknarflokksins


Glitrum saman – nýsköpun í heilbrigðisþjónustu fyrir einstök börn á landsbyggðinni

Eitt lítið Naustahverfi á Tjaldsvæðisreitinn?

Alþjóðaflugvöllurinn á Akureyri: Hvar er Icelandair?

Værum hluti af svari ESB innan þess
