Fara í efni
Pistlar

Davíð Stefánsson

Það fæðast reglulega skáld. Ekki öll ná flugi eða yrkja sig inn að hjörtum fólks eins og skáldið Davíð Stefánsson, sem fæddist að Fagraskógi fyrir 130 árum, 21. janúar 1895.

Afmæli eru tímamót. Stundum meiri en önnur. Eins og þegar Davíð hélt upp á 21 árs afmæli sitt 21. janúar 1916. Hann var þá búsettur í Kaupmannahöfn og fagnaði afmælinu með félögum sínum í Boðn, bræðralagi ungskálda, félagsskap sem hann hafði nokkrum dögum áður fengið inngöngu í eftir að hafa flutt þar nokkur af ljóðum sínum og sannað fyrir félögunum að hann væri efni í skáld. Líklega hefur verið skálað fyrir því.

Davíð Stefánsson og móðir hans, Ragnheiður Davíðsdóttir.

Í þessu örlagaríka afmæli voru fleiri en bræður í Boðn, m.a. doktorsneminn Sigurður Nordal sem var kominn til nokkurra metorða í bókmenntaheiminum. Sigurður var ekki þarna staddur fyrir tilviljun því vinur og afmælisbróðir Davíðs, Björn O. Björnsson, hafði boðið honum sérstaklega til að heyra í þessu efnilega skáldi.

Í veislunni las Davíð nokkurra ljóða sinna ofurlítið ör af víni, að sögn Sigurðar sem varð uppnuminn, reis á fætur að loknum flutningi og kvað upp sinn dóm „Þessi maður er skáld! Það vissi ég eftir þessar línur í ljóðinu Komdu“

Ekki skal það kvelja þig
skóhljóðið mitt,
ég skal ganga berfætt
um blessað húsið þitt

Sigurður einsetti sér að styðja við hið unga skáld og fyrir hans tilstilli voru kvæðin, Komdu, Brúðarskórnir, Allar vildu meyjarnar, Léttúðin og Hrafnamóðirin, gefin út í Eimreiðinni 1916. Það var í fyrsta sinn sem skáldið Davíð kom út á prenti. Ári síðar kom kvæðið Myndhöggvarinn út í tímaritinu Iðunn.

Í Davíðshúsi við Bjarkarstíg. Húsið er varðveitt sem safn í nánast óbreyttri mynd eftir að Davíð féll frá.

Flugið til fulls tók skáldið frá Fagraskógi með fyrstu bók sinni Svartar fjaðrir 1919 sem beðið var með eftirvæntingu. Hún flaug beint inn að hjarta þjóðarsálarinnar þar sem hin tilfinningaþrungnu, myndrænu en ekki síst persónulegu ljóð slógu í takt við tíðarandann.

Sestu hérna hjá mér,
systir mín góð.
Í kvöld skulum við vera
kyrrlát og hljóð.

Þetta upphafsljóð í Svörtum fjöðrum er „eitt af þessum kínversku kvæðum sem altof sjaldan eru ort,“ sagði nóbelskáldið Halldór Laxness þegar hann minntist Davíðs í bókinni Upphaf mannúðarstefnu.

Fáar íslenskar ljóðabækur hafa náð þvílíku flugi og Svartar fjaðrir, sem hafa verið gefnar út 13 sinnum síðast árið 2011 og stendur til að endurútgefa á þessu ári. Þannig þurfti að prenta þrjú upplög af bókinni 1955 til að anna eftirspurn.

Davíð lét ekki þar við sitja. Þær ljóðabækur sem fylgdu í kjölfarið, Sólon Íslandus og leikritið Gullna hliðið urðu til þess að festa Davíð í sessi sem eitt af höfuðskáldum Íslendinga á 20. öld. Ljóð hans hafa orðið almenningseign og við þau samin fjölmörg lög. Fleiri en við ljóð nokkurs annars skálds. Og enn eru ljóðin listafólki innblástur.

Heimili Davíðs, Davíðshús Bjarkarstíg 6, er varðveitt sem safn í nánast óbreyttri mynd eftir að hann féll frá. Í stofunni verður 130 ára afmælinu fagnað með söng, sögum og lestri. Listafólkið sem stígur á stokk eru þau Sesselía Ólafsdóttir og Svavar Knútur sem einnig er afmælisbarn dagsins, en allnokkrum árum yngri en Davíð.

Verið velkomin í Davíðshús, í dag sem aldrei fyrr, frá kl. 19:30. Aðgangur ókeypis.

Haraldur Þór Egilsson er safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri. Safnið hefur umsjón með Davíðshúsi.

Davíð Stefánsson á þrítugsaldri.

Fagriskógur á Galmaströnd í Eyjafirði. Þar fæddist Davíð Stefánsson og var jafnan kenndur við bæinn.

Davíðshús - Bjarkarstígur 6 á Akureyri.

Selshreifar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
20. janúar 2025 | kl. 11:30

Ódi

Jóhann Árelíuz skrifar
19. janúar 2025 | kl. 06:00

Sambýlið á Ásbraut 3 í Kópavogi

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
17. janúar 2025 | kl. 06:00

Minjasafnsgarðurinn á Akureyri

Sigurður Arnarson skrifar
15. janúar 2025 | kl. 16:00

Hús dagsins: Laxdalshús, Hafnarstræti 11. (230 ára í ár)

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 07:00

Keiluspil

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
13. janúar 2025 | kl. 11:30