Fara í efni
Pistlar

Broddfura, Pinus aristata. Engelmann

TRÉ VIKUNNAR - LIII

John W. Gunnison var leiðtogi rannsóknarhóps sem vann við það að finna heppilega leið yfir Klettafjöllin fyrir fyrirhugaða járnbrautarlest. Hópurinn var gerður út af Kyrrahafslestunum (Pacific Railway). Nú var hann staddur í skarði einu í Kólóradó. Með Gunnison voru ellefu aðrir þátttakendur. Einn þeirra var grasafræðingur að nafni F. Creutzfeldt. Rétt er að taka fram að enginn í hópnum hafði ættarnafnið Jakobs. Creutzfeldt þótti það sem þeir sáu í skarðinu ákaflega merkilegt. Hann skráði í dagbók sína að svæðið væri „þakið lágvöxnum furum“ sem hann hafði aldrei séð áður. Til sannindamerkis tók hann með sér eina grein af þessari tegund en sleppti því að taka með sér köngul, sem verður að teljast merkileg handvömm af grasafræðingi. Þetta var í fyrsta skipti sem grasafræðingur lýsti þessari furutegund sem var vísindunum ókunnug á þessum tíma. Þetta var síðasta grasafræðilega uppgötvun Creutzfeldts.


Broddfurur, Pinus aristata. Engelmann, í fjöllum Arizona. Myndin fengin
héðan.

Atburður þessi átti sér stað haustið 1853. Gunnison, Creutzfeldt og hinir leiðangursmennirnir í hópnum héldu síðan ferð sinni áfram austur. Þeir vissu ekki að á sama tíma hafði komið til átaka á þessum slóðum milli mormóna og frumbyggja af Ute-þjóðinni vegna nýtingarréttar á vatni. Utah-ríki í Bandaríkjunum er nefnt eftir þessari þjóð sem á þeim dögum var nokkuð fjölmenn. Þegar hópurinn kom til Utah mættu þeir Ute stríðsmönnum sem lögðu þegar til atlögu. Féllu þar átta bleiknefjar en fjórir komust undan við illan leik. Líkin voru skilin eftir og gæddu úlfar sér á hræjunum.

 

Stríðsmenn af Ute þjóðinni. Myndin fengin héðan

Var þessi atburður nefndur „Gunnison fjöldamorðin“ eftir leiðtoga bleiknefjanna og er nú minnisvarði í fjöllunum þar sem átökin urðu. Eftir þessa atburði var sett á oddinn að finna dagbækur hópsins vegna fyrirhugaðrar járnbrautar. Tókst að finna þær með hjálp Ute-fólks enda var þá friður kominn á. Meðal dagbókanna voru bækur Cruetzfelds. Í þeim er að finna elstu skrifuðu lýsingu á broddfurum sem varðveist hefur. Að vísu galt hann fyrir með lífi sínu og er flestum gleymdur.

Nánari lýsingu gerði síðan grasafræðingur að nafni Engelmann árið 1862 og gaf tegundinni nafn. Það er sá sami Engelmann og blágrenið, Picea engelmannii, er nefnt eftir. Í fyrirsögn þessa pistils er latínuheiti þessarar tegundar ásamt nafni Engelmanns til að minna okkur á þetta.

 

Við bílastæðið í Grundarreit eru broddfurur sem gróðursettar voru árið 1977. Því miður virðist sveppurinn furubikar eða Gremmeniella abietina, hafa numið land í skóginum. Við höfum áður birt sérstakan pistil um þessar furur á Grund. Mynd: Sig.A. í ágúst 2023.

 

Tvær broddfurur á Eiðsvelli geisla af hreysti. Sama verður ekki sagt um stærri bergfuru sem er aftan við þær. Mynd: Sig.A.

Broddfurur

Þetta er þriðji pistill okkar um broddfurur. Síðasti broddfurupistill fjallaði um broddfururnar á Grund í Eyjafirði. Í fyrsta pistli okkar fjölluðum við almennt um þennan hóp af furum og rindafuru, Pinus longaeva, sem sumir telja að geti myndað elstu lífverur í heimi. Hin náskylda broddfura, P. aristata, verður líka gömul en þó ekki eins gömul og rindafuran. Sjaldgæft er að hún verði eldri en 1500 ára, sem er þó töluvert. Talið er að sumar villtar broddfurur geti orðið 2000 til 2500 ára þar sem þær vaxa í um 2500-3700 metra hæð í Kólórado, Nýju Mexíkó og á takmörkuðu svæði í Arizóna. Því var það þessi tegund sem Cruetzfeld fann í Kólóradó, en er hann féll í Utah var hann að nálgast slóðir rindafurunnar.
 
 

Broddfurur við Staðará (dökkar á litinn) rétt við Hallormsstaðaskóla (Hússtjórnarskólann). Plöntunum var plantað árið 1938 og hæsta tréð var 11,4 m í ágúst 2023. Mynd og upplýsingar: Þór Þorfinnsson.

Útlit

Þessi tegund hefur að jafnaði breiðkeilulaga vaxtarlag og er oft fremur runnakennt tré. Það getur þó orðið um 5–15 m hátt og ummál bols allt að 1,5 m. Til eru dæmi um enn hærri furur sem vaxið hafa við góð skilyrði. Börkurinn er sléttur á ungum trjám en verður hreisturkenndur og springur með aldrinum. Barkarliturinn er grágrænn en brúnleitur, jafnvel ryðbrúnn á eldri trjám.
 

Upp frá götunni Naustabraut á Akureyri (rétt við bæinn Naust) er skógarreitur á milli Hagahverfis og Naustahverfis. Öll trén í reitnum eru af þallarætt, Pinaceae. Þarna má finna lerki og ýmsar tegundir af greni og furum. Þar á meðal eru broddfurur og má sjá þær á öllum myndunum hér að ofan. Á einni myndinni sést sláttuvél sem heldur grasvexti niðri. Er hún af tegundinni Equus caballus. Hver sláttuvél er eitt hestafl. Myndir: Sig.A.

Greinar trjánna sveigjast upp og eru nokkuð þéttar, enda vex tréð vanalega bæði lítið og hægt. Árssprotarnir eru rauðbrúnir og á þeim má sjá stutt, ljós hár. Litur barrnálanna er miklu ljósari á árssprotum en eldri sprotum. Allt eru þetta einkenni sem hjálpað geta til við að greina þessa tegund.

 

Vindsorfin fura í fjöllum Kólóradó nálægt Idaho Springs. Myndina tók Darren White.

Nálar

Stundum er ættkvísl fura skipt í þrjár undirættir eða hópa. Furur sem hafa tvær eða þrjár nálar í knippi, furur sem hafa fimm langar nálar í knippi og svo broddfururnar sem hafa einkenni beggja hinna hópanna.
 

Broddfuran hefur fimm fremur stuttar nálar í knippi. Sker hún sig þannig frá flestum öðrum fimm nála furum sem hafa langar nálar í sínum knippum. Lengdin á nálum broddfurunnar minnir meira á svokallaðar tveggja eða þriggja nála furur svo sem bergfuru og stafafuru. Þess vegna eru broddfururnar alveg sér á báti. Nálarnar eru þrístrendar og á tveimur hliðum eru áberandi hvít rák af varafrumum við loftaugu nálanna. Eitt er enn ónefnt sem einkennir nálar broddfururnar sem ekki finnst á öðrum heilbrigðum furum á Íslandi. Það eru svokallaðar harpix útfellingar á þeim. Mynda þær hvíta díla sem óvanir telja stundum að hljóti að vera einhvers konar sjúkdómur. Svo er ekki. Þeir minna þó á ummerki furulúsa sem stundum má sjá á skógarfurum, P. sylvestris en þessar útfellingar eru með öllu skaðlausar.

Barrnálar á broddfurum. Myndir: Sig.A.

Könglar

Broddfuran dregur nafn sitt af könglunum. Þeir eru með áberandi brodda við köngulskeljarnar. Að auki er á þeim heilmikið harpix svo vel má ímynda sér þægilegri vinnu í skóginum en að tína broddfuruköngla berhentur. Það tekur könglana þrjú ár að þroskast og oft má sjá mismunandi árgerðir af könglum á sama trénu. Svo opnast þeir og fella fræið. Síðan falla þeir af trénu í heilu lagi. Könglarnir eru um 5-10 cm langir og um 3-4 cm á breidd. Ungir könglar eru nær fjólubláir að lit, svo dökkna þeir og verða nær svartir. Eldri könglar gulna þegar þeir opnast og verða ljósbrúnir.
 
 
Könglar á broddfuru á Akureyri. Sjá má broddana á þeim og sjá má bæði gamla köngla sem hafa opnast og unga, lokaða köngla. Myndir: Sig.A.

Þrif

Glæsileg broddfura í steyptu keri framan við yfirgefinn banka. Furan teygir sig upp í glugga á 2. hæð. Mynd: Sig.A.

Eins og flestar furur er broddfuran sólelsk tegund. Þrátt fyrir að hún sé háfjallategund sem lifir við erfið skilyrði er það svo að hún vex mjög hægt í rýru landi. Í mjög rýrum jarðvegi þrífst hún illa á Íslandi. Sérstaklega ef lyngtegundir vaxa þar. Dæmi er til um plöntur á Íslandi í rýru landi sem einkennist af bláberjalyngi sem aðeins hafa náð 20-30 cm hæð á 30 árum (Sigurður Blöndal 1995). Í frjóu landi vex hún miklu betur. Fallegust er hún í slíku landi, einkum ef nægrar birtu nýtur. Hún getur líka vaxið þokkalega í rýru en gróðursnauðu landi. Það virðist vera lyngið sem henni er illa við. Best þrífst hún í frjóum og sendnum jarðvegi við góða birtu. Í skugga verður hún rengluleg og teygð.

Algengt er að sjá allskonar furur sviðna í vorsól en slíkt virðist broddfuran standast ágætlega.

Góð byrjun

Fræ af broddfuru voru fyrst flutt til landsins í upphafi 20. aldar og sáð í gróðrarstöð Skógræktar ríkisins, eins og stofnunin hét lengst af, á Hallormsstað. Árið 1908 var þessum trjám plantað í gróðurreit í Mörkinni og stóðu þar meira en áratug. Þá voru sum trén tekin upp og plantað víðar í skóginum og við Húsmæðraskólann. Trén uxu lengi vel hægt en áfallalaust. Þessi tré báru fyrst fræ í lok síðari heimsstyrjaldar (Auður 2006). Nú, árið 2024, eru fururnar í Mörkinni orðnar 14,9 metrar á hæð en því miður líta þær mjög illa út og eiga ekki langt líf fyrir höndum (Þór Þorfinnsson 2023).
 
 

Broddfurur í Neðsta-reit í Mörkinni á Hallormsstað sem fengu að vaxa upp úr græðireitnum sem þeim var sáð í. Lengi voru þær mjög fallegar, en því miður er svo ekki lengur. Mynd: Þór Þorfinnsson.

Af og til hefur fræ af broddfurum verið flutt inn síðan þetta var en fræ af trjánum í Mörkinni á Hallormsstað hefur verið uppistaðan í broddfuruframleiðslu á Íslandi allt frá sjötta áratug síðustu aldar. Að jafnaði er spírun góð en eftirspurn eftir tegundinni hefur farið minnkandi.

 

Tvær myndir af broddfurum í Hallormsstað sem standa skammt frá gamla blágreninu frá 1905. Tréð á fyrri myndinni er 15,1m á hæð en hitt er 11,7 m. Þessar tvær furur voru teknar úr beðinu í Neðsta reit árið 1934 og plantað þarna. Þær eru því úr sömu sáningu og ljótu fururnar hér ofar. Myndir og upplýsingar: Þór Þorfinnsson.

Nytsemi

Sigurður Blöndal skrifaði bækling um innfluttar trjátegundir í Hallormsstaðaskógi árið 1995. Þar segir hann orðrétt: „Fáar trjátegundir eru fallegri en broddfura í skrautgreinar. Hún er mjög barrheldin. Kjörin er hún sem garðtré og í útivistarskóga.“ Þarna hitti Sigurður auðvitað naglann á höfuðið eins og svo oft, en þetta var áður en bakslagið mikla kom.
 
 
Leiða má líkur að því að broddfurunni leiðist ekki á þessu leiði. Mynd: Sig.A.

Margt mælir með broddfurum sem garðtré. Einkum í litla garða, enda er hún hægvaxta og tekur ekki of mikið pláss. Hún er á nokkrum stöðum á Akureyri í beðum á vegum bæjarins og í görðum en hún er hvergi mjög algeng.

Fjórar broddfurur má sjá við Ráðhús Akureyrar og á nánast öllum grenndarstöðvum fyrir sorplosun í bænum eru broddfurur til skrauts. Myndir: Sig.A.
Vestan við hina sameinuðu heimavist MA og VMA eru nokkrar broddfurur í þyrpingu. Því miður er sveppurinn furubikar kominn í þær en hefur ekki enn skaðað þær að marki. Austan við MA er fura sem er geislandi af hreysti. Myndir Sig.A.

Lengi var furan áberandi í skrautbeðum við Glerárkirkju. Þar stóð hún sig vel og blómstraði mikið og árlega. Setti hún glæsilegan svip á beðin og umhverfið. Í aðventuhretinu mikla árið 2019, þegar mörg tré brotnuðu illa undan blautum snjó, fór það einmitt svo að þessar furur fóru alveg í klessu. Í kjölfarið voru þær flestar fjarlægðar úr beðunum.

 

Illa farnar broddfurur við Glerárkirkju eftir aðventuhretið 2019. Myndin tekin föstudaginn langa í apríl 2020. Þessar furur eru nú horfnar eins og vænta mátti. Mynd: Sig.A.

Við þetta má bæta að hægt er að planta tegundinni í ker ef munað er að vökva hana í miklum þurrkum. Þá getur verið ágætt að stytta ársprota hennar, eða „pinnsera“ eins og sagt er ef fólk vill sletta. Við það verður furan mun þéttari en ella.

Fallegar broddfurur má víða finna í görðum á Akureyri. Myndir Sig.A.

Smellið hér til að sjá allan pistil Sigurðar

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga
 
  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

Hangið aftan í

Jóhann Árelíuz skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30