BRAVÓ BOLÉRO
Sinfóníuhljómsveit Norðurlands flutti manni kærkomna hvíld frá pólitískum holskeflum s.l. sunnudag í Hamraborg. Ég valdi viljandi fyrirsögnina til að benda á að „BRAVÓ“ verkin voru ekki bara Boléro, eins og hefði mátt ætla í einhæfni auglýsingaslagorða, heldur voru þau fjögur. Meira að segja voru tvö glæsileg íslensk hljómsveitarverk frumflutt eftir tónskáld í fremstu röð íslenskra tónskálda. Svo fékk fyrsti fiðlukonsertinn eftir ofurtónskáld 20. aldar, Dmítríj Shostakovítsj, að hljóma í afar fallegum flutningi einleikarans og konsertmeistara Sinfóníunnar svo oft, hennar Gretu Salóme með hljómsveitinni.
Engin má halda að orðum mínum sé ætlað að draga úr dásamlegum og grípandi mögnuðum flutningi á Boléro eftir Ravel og mig grunar að Ravel „himself“ hefði verið ánægður með yfirvegaðan og rólegan hraða sem Daníel Bjarnason, stjórnandi, valdi, en einhvers staðar las ég að sjálfur Toscanini hefði fengið ákúrur frá Ravel fyrir of mikinn hraða á þessu síendurtekna bolero stefi spánardansins.
Einhverjum kann að þykja gamaldags ádrepa að kvarta yfir skorti á prentaðri efnisskrá og borið við verði og kolefnissporum og ég veit ekki hvað. Dagskráin er öll inni á símanum og á honum má ekki kveikja á tónleikum. Vel upplýst fólk ætti að vera búið að lesa sér til heima. Svo upplýstur er ég ekki. Auðvelt hefði verið að bjarga þessu með kynni á sviðinu. Fyrir þá sem trössuðu þennan undirbúning eins og ég, vil benda á þessa vefslóð; https://www.mak.is/static/files/2024/Bolero/bolero_efnisskra_lokautgafa.pdf
Sumum finnst svona lagað vera smámunasemi og það verður að taka því. Svo ég klári þann þátt þá kemst ég ekki hjá að nefna hræðilega erfiða aðkomu að Hofi. Ég hélt að við hjónin hefðum lagt tímanlega af stað og vorum á Hofsslóðum 18 mínútum fyrir áætlaðan tíma. En sama hvert litið var, engin bílastæði, hvort sem var fyrir mig á P merktum bíl, né aðra. Bílum lagt þétt inn í hringinn framan við aðalinngang. Við náðum að leggja upp í skafl og með „bólero“ takti tókst að göslast í gegnum snjóinn og lenda í hjólastólnum. Örlítið bil var fyrir hjólastólinn á milli tveggja bíla og með aðstoð heiðursmannsins Gunnars Frímannssonar tókst að komast í gegnum snjóinn og komast inn á síðustu mínútu. Sérstaklega hressilegur upptaktur að frábærum tónleikum.
Þeir hófust með einkar fallegum og grípandi frumflutningi á Konsert nr.2 fyrir hljómsveit eftir Snorra Sigfús Birgisson. Þetta var sérstaklega samið að ósk stjórnar Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands. Stórkostleg stund að Snorra Sigfúsi viðstöddum. Síðan fór Gréta Salóme og hljómsveitin á kostum með djúphygla og fagra fiðlukonsert nr.1 eftir Shostakovítsj. Eftir hlé kom svo magnað verk eftir hljómsveitarstjórann Daníel. Þar minnist hann ótímabærs láts Jóhanns Jóhannssonar kollega síns. Hann lifir sig þarna inn í tónmál Jóhanns og nálgast stef hans úr Odi et Amo af smekkvísi og sköpunarkrafti í verki sem hann nefnir: A Fragile Hope, brothætt von í þýðingu.
Skrif mín ber að taka sem hugleiðingar um tónleikana og umbúnað, ekki sem tónlistargagnrýni. Topparnir á þessum tónleikum verða eins og tindarnir fjórir: Ytri-Súlur, Syðri-Súlur, Bóndi og Stóri-Krummi, þau: Daníel Bjarnason, Greta Salóme, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Snorri Sigfús Birgisson. Kærar þakkir!
Jón Hlöðver Áskelsson er tónskáld