Andreas frá Monkeys tekur yfir eldhús Eyju

Andreas Patrekur Williams Gunnarsson, matreiðslumaður á veitingastaðnum Monkeys í Reykjavík, tekur yfir eldhús Eyju Vínstofu & Bistro við Hafnarstræti um helgina. „Hann mun galdra fram fimm rétta pop-up matseðil fyrir gesti Eyju og leyfa ástríðu sinni fyrir íslenskri matargerð að njóta sín til fulls,“ segir Guðbjörg Einarsdóttir, einn eigenda staðarins.
Guðbjörg segir Andreas leggja mikið upp úr íslenskri matarmenningu, „og uppáhalds hráefnin hans eru þau sem hann finnur í íslenskri náttúru. Andreas er spenntur að koma og deila sinni matargerð með okkur.“
Andreas hóf feril sinn sem nemi á Dill „og hefur síðan unnið á bæði virtum veitingastöðum í Danmörku og Reykjavík. Hann hefur haldið pop-up viðburði á Íslandi og í Noregi, og nú fá sælkerarnir hér fyrir norðan að kynnast matargerð hans í glæsilegu umhverfi á Eyju.“
Verð á fimm rétta pop-up matseðlinum er 10.900 krónur. „Við erum komin með helling af bókunum fyrir bæði kvöldin. Við tökum einungis við 70 manns hvert kvöld þannig við mælum með að tryggja sér borði sem fyrst,“ segir Guðbjörg.
Guðbjörg Einarsdóttir vert og einn af eigendum Eyju vínstofu & bistro, Alexander Alvin yfirmatreiðslumeistari á Eyju vínstofu & Hótel Vesturlandi og Helgi Pétur Davíðsson yfirþjónn á Eyju – og lengst til hægri, Andreas Patreki Williams Gunnarsson frá Monkeys.
Eyja Vínstofa & Bistro er í gömlu húsi frá 1898 í miðbæ Akureyrar og tekur allt að 55 gesti í sæti í einu. Um helgar breytist staðurinn í vínbar eftir að kvöldverði lýkur. „Við veljum aðeins vín sem okkur sjálfum líkar við og leggjum mikið upp úr því að bjóða upp á fjölbreytt úrval,“ segir Guðbjörg.
„Við höfum fundið fyrir miklum áhuga frá Akureyringum og viljum halda áfram að bjóða upp á áhugaverða viðburði. Fyrst og fremst viljum við að bæjarbúar geti verið stoltir af Eyju og því sem við bjóðum upp á,“ bætir hún við. „Við erum virkilega spennt að fá Andreas til okkar norður, og undirbúningurinn er í fullum gangi,“ segir Guðbjörg. „Það er okkur mikil heiður að hýsa svona viðburð.“