Fara í efni
Íþróttir

Akureyrskir júdómenn á æfingu um 1980

Mynd úr safni Akureyrarblaðsins Íslendings

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – XIII

Þrettánda gamla íþróttamyndin birtist á Akureyri.net í dag lesendum til skemmtunar. Að þessu sinni er myndin af júdómönnum á æfingu í íþróttahúsi Glerárskóla um 1980. 

Akureyringar kynntust fyrst þessari austurlensku íþrótt um miðjan áttunda áratuginn. Júdódeild Þórs var stofnuð 1975 að frumkvæði Þóris Steingrímssonar, Hreiðars Jónssonar og sunnanmannsins Gunnars Sigurðssonar, 1. dan, sem fluttur var til Akureyrar og tók að sér þjálfun. KA stofnaði júdódeild 1977 og fulltrúar beggja félaga, ásamt félögum í Skautafélagi Akureyrar, kepptu fyrstu árin undir merkjum Júdóráðs Akureyrar. Fyrsti Íslandsmeistari Akureyringa í júdó var Þorsteinn Hjaltason árið 1979, í flokki 15 - 17 ára. Þorsteinn, nú kunnur lögmaður á Akureyri, er lengst til vinstri í fremri röð á myndinni. Nokkrum árum síðar var júdódeild Þórs lögð niður, KA tók við keflinu og félagið átti sigursælustu júdómenn landsins um langt árabil.

Þekkirðu þessa júdókappa með nafni og kanntu jafnvel af þeim skemmtilegar íþróttasögur? Endilega sendu upplýsingar á netfangið skapti@akureyri og nöfnin verða öll birt við tækifæri.