Fara í efni
Pistlar

Að veiða í gegnum linsuna...

VEIÐI –

Fátt er yndislegra en að fá fisk á stöng. Tilfinningin þegar fiskurinn stekkur á agnið og rýkur af stað er magnþrungin og spennan yfir að berja fenginn augum mikil. Það er síðan orðinn fastur liður hjá flestum veiðimönnum að smella mynd af veiðimanni og bráð og sýna alþjóð á hinum ýmsu netmiðlum og fylgjast með like-um og taka móti aðdáunarorðum netverja. Það trúir þér varla nokkur ef þú skrifar færslu á fjésbókinni um að þú hafir veitt þann stóra nema þú birtir mynd því til sönnunar.

Sú sem þetta skrifar er oft að flækjast ein á veiðum. Þetta skapar vissan vanda við myndatökur,að minnsta kosti ef veiðimaður og bráð eiga að vera saman á mynd. Félagsskapur í stangveiði er því kostur hvað þetta varðar. Félagsskapurinn Catch production láta sér hins vegar ekki nægja að smella mynd og setja á fjésbókina heldur framleiða heilu myndböndin sem öll snúa að stangveiði. Ég heyrði í Valdimar Heiðari Valssyni, margreyndum veiðimanni sem er hluti af þessum félagsskap.

Reyfarakaup – eða þannig ...

Aðspurður um hvenær veiðidellan hafi bankað á dyrnar segist Valdimar hafa stundað bryggjuveiðina stíft sem barn á Hauganesi. Það var á gullaldarárum bryggjuveiðinnar þegar fiskafgöngum frystihúsanna var keyrt út á bryggju og sturtað í sjóinn. Þá iðaði allt af lífi við bryggjur landsins, annað en í dag.

Valdimar keppti svo á þó nokkrum sjóstangveiðimótum í kringum tvítugt og fannst það mjög gaman. Þá segist hann hafa eytt flestum sumrum á sjó og fór ekki að hugsa um stangveiði fyrr en hann fékk vinnu í landi fyrir um það bil 11 árum. Hann fjárfesti í fluguveiðistöng og hjóli sem hann fann í Rúmfatalagernum á lítinn pening. „Ég hélt ég væri að gera reyfarakaup, hafði heyrt að svona græjur væru rándýrar og var því fljótur að skella mér á stöngina og fór glaður í bragði að sýna félaga mínum fenginn“. Valdimar var hinsvegar fljótt sleginn niður á jörðina þegar félagi hans upplýsti hann um að græjurnar væru með öllu ónothæfar og hann skyldi fara og kaupa sér almennilegar græjur. „Það fór svo að ég splæsti í Loop fluguveiðistöng sem ég á enn og er hrikalega ánægður með.“

Eftir þetta varð ekki aftur snúið.

Ísak Matthíasson, til vinstri, og Valdimar Heiðar Valsson.

Frábærar móttökur

En hvernig skyldi það hafa æxlast svo að Valdimar fór á bak við linsuna og byrjaði að framleiða veiðimyndbönd í nafni Catch Production?

Hann segir hugmyndina hafa kviknað eftir að hann stofnaði reikning á Snapchat sem kallast Icemaddicatch, þar sem hann fjallaði um veiðiskap. Við þetta sköpuðust meiri samskipti við aðra veiðimenn þar á meðal Ísak Matthíasson. Hann hafði verið iðinn við að taka flottar veiðimyndir og birta á Instagram reikningi sínum. „Ég nefni gerð veiðimyndbanda fyrst við Ísak sumarið 2018 en ekkert varð úr því vegna anna en sumarið 2020 látum við verða af samstarfinu“.

Fyrsta myndband þeirra félaga fór í loftið skömmu síðar og fékk frábærar móttökur. Myndbandið var tekið upp í Presthvammi og Syðra-Fjalli í Laxá í Aðaldal. Síðan þá eru komin sex myndbönd frá piltunum í Catch Production og meira á leiðinni. „Við erum búnir að fara nokkrar ferðir í vor og Ísak er að klippa tvö myndbönd sem ættu að koma út á allra næstu dögum og við hlökkum til að sýna afraksturinn. Við ætlum svo að vera á faraldsfæti í sumar og gera fleiri myndbönd. Þetta er eitthvað sem við elskum að gera og langar að ná lengra í þessum geira.“

Mikil vinna og tími

„En umstangið kringum upptökurnar er mikið og tekur sannarlega tíma frá veiðiskapnum sjálfum, sem er fórnarkostnaðurinn í þessu öllu saman,“ segir Valdimar. Þegar heim er komið fer drjúgur tími í að hlaða myndbönd inní tölvu, klippa þau til og koma þeim í það form sem við hin fáum að njóta. Dagarnir eru því langir, unnið fram á nætur og byrjað að veiða í bítið.

Það eru sjálfsagt fæstir sem gera sér grein fyrir hversu mikil vinna liggur að baki einu litlu myndbandi. Þá er auðvitað mikill kostnaður sem fylgir þessu, heldur Valdimar áfram. „Við ákváðum að fara í þetta af fullum krafti og fjárfestum í dýrum búnaði og síðan týnist til annar kostnaður eins og eldsneyti, matur og þess háttar. Við erum svo heppnir að hafa góða styrktaraðila með okkur í liði og viljum nota tækifærið og þakka Kjarnafæði, Origo og MS innilega fyrir að taka þátt í þessu með okkur. Ef einhverjir hafa áhuga á að styrkja okkur eða fá okkur til að taka upp veiðimyndbönd þá er bara að hafa samband og senda okkur línu á netfangið catchproduct36@gmail.com.“

Þá biðja félagarnir Valdimar og Ísak alla sem áhuga hafa á veiðiskap að fylgjast með þeim í sumar. Það er hægt að gera með því að skoða Snapchat reikninginn Icemaddicatch og Instagram reikninginn Catchproduction. „Allra best er þó að skrá sig inná Youtube rásina okkar Catch production og taka þátt í þessu með okkur með því segja sitt álit á myndböndunum okkar,“ bætir Valdimar við.

Að lokum vilja strákarnir þakka Matthíasi hjá Iceland fishing guide og strákunum í Fishpartner fyrir gott samstarf.

Ég þakka Valdimar hins vegar fyrir spjallið og hlakka til að fylgjast með ævintýrum þeirra félaga á bakkanum í sumar.

Smellið hér til að sjá nýjasta veiðimyndband Ísaks og Valdimars.

Guðrún Una Jónsdóttir er formaður Stangaveiðifélags Akureyrar.

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Af dægurlagatextum

Skapti Hallgrímsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 08:00