Fara í efni
Menning

Völvuleiðið í Vík – brot úr bók Sigurðar Ægissonar

Vík í Héðinsfirði í júní 2017. Völvuleiðið er strýtumyndaði hóllinn. Ljósmynd: Sigurður Ægisson.

Völvur á Íslandi er ein þeirra bóka sem Hólar gefa út fyrir þessi jól. Bókin er eftir Sigurð Ægisson, guðfræðing og þjóðfræðing, og er rúmlega 400 blaðsíður. Þar er m.a. fjallað um á sjöunda tug völvuleiða, sem finna má heimildir um víða um land. Hér brot úr kaflanum um það sem er að finna í Vík í Héðinsfirði, við mynni Eyjafjarðar.
_ _ _ _

Eiríkur Sigurðsson (1903–1980), rithöfundur og skólastjóri á Akureyri, tók saman grein um Héðinsfjörð og birti í tímaritinu Súlum árið 1976. Kona hans, Jónína (1906–1998), var fædd í Vík og þar bjó tengdafaðir hans, Steinþór Þorsteinsson (1874–1952), frá 1906 til 1916. Eiríkur hefur viðað að sér nánari fróðleik um það sem hér er til umfjöllunar og segir meðal annars: „Gamalt eyðibýli er í Vík niður við sjóinn sunnan árinnar. Það heitir Valva. Enginn veit nú hvernig stendur á þessu nafni. En fleiri örnefni eru þar kennd við völvuna, Völvutótt, Völvulaut og Völvuhryggur. Einhverjar sagnir munu hafa verið til um þessi örnefni en eru nú gleymdar. Völvutóttin var álagablettur. Hana mátti ekki slá.

Þegar Björn Þorleifsson [1834–1905] bjó í Vík [frá 1887], kom honum í hug að rækta upp Völvutóttina og þar um kring. Björn var merkismaður, bóndi góður og talinn gæddur dulrænum gáfum. Þrátt fyrir þessi ummæli, kom honum í hug að rækta þarna. Hann bar þangað fiskslóg í kjagga. En er hann kom að Völvutótt, setti hann frá sér kjaggann og meira varð ekki úr þeim fyrirætlunum. Slóginu dreifði hann aldrei. Þarna stóð kjagginn og grotnaði niður, því að enginn vogaði sér nokkurn tíma að hrófla við honum. Álitu menn að Björn hefði orðið einhvers var, er hann setti frá sér slógílátið, og hefði þá hætt við frekari framkvæmdir. En engum mun hann hafa sagt, hvað fyrir hann hefur borið. Var Björn þó vanur að fara sínu fram og láta ekki aðra hafa áhrif á gjörðir sínar.“

Áfram heldur Eiríkur og segir: „Fleiri munnmælasögur eru bundnar við Völvutótt. Þegar Þorlákur Ólafsson [1875–1958] bjó í Vík ætlaði hann að byggja íbúðarhús á Völvutóttinni. Var hann byrjaður að hlaða veggina að húsinu, eins og sjást merki enn þann dag í dag. En þá hentu hann ýmis óhöpp, þar á meðal missti hann einu kúna sína. Setti fólk það í samband við bannhelgi staðarins. Varð það að ráði að Þorlákur hætti við húsbygginguna og fluttist til Ólafsfjarðar árið eftir.“

Eiríkur er síðan með enn eitt innleggið í þessa sögu. Nú farast honum svo orð: „Sigurður Björnsson [1912–1978] sagðist alltaf hafa virt bannhelgi Völvutóttar, og hefði móðir sín [Anna Lilja Sigurðardóttir, 1890–1964] ekki mátt heyra annað en það væri gert.

Nú vildi svo til að bráðapest kom upp í fé í Héðinsfirði, en hún hefði ekki þekkst þar áður. Kom hún upp í fé þeirra bræðra, Einars og Haralds, sem þá bjuggu í Vík. En þeir höfðu fjárhús sín hinum megin við ána, á Sandvöllum. Sigurður hafði hinsvegar fjárhús sín heima við í Vík. Skömmu eftir að fjárpestin kom í sveitina dreymdi Sigurð draum, sem að vísu var mjög óljós. Honum fannst hann vera staddur niður við Völvuhrygg. Varð hann þar var við tvö börn. Draumurinn var mjög dulrænn og óljós. Þó fannst honum, að börnin væru að segja sér, að þau ætluðu að vernda fé hans fyrir pestinni. Fé Sigurðar og þeirra bræðra gekk mikið saman, meðal annars við þarabeit í fjörunni. Þeir urðu fyrir miklu tjóni af þessari fjárpest og misstu um fjörutíu ær. En Sigurður missti aðeins eina á. Hann sagðist hafa reynt að gæla við þá hugmynd, að börnin frá Völvu hefðu verið verndarar fjárins þessi tvö ár, sem pestin gekk.“ Áþekkt þema kemur fyrir á nokkrum öðrum stöðum á Íslandi.

Í spjalli við bókarhöfund 8. júlí 1989 könnuðust Jóhann Helgi Stefánsson (1926–2006), frá Grundarkoti í Héðinsfirði, og Páll Ásgrímur Pálsson (1919–1998), frá Vík í Héðinsfirði, sömuleiðis við Geirhildartóft innar í firðinum, í landi Ámár. „Ég man eftir því að það var verið að hræða mig á þessum stað, þegar ég var ungur,“ sagði Páll, og minnti að eitthvað hefði verið rætt um völvu í því sambandi. Það væri ekki fordæmalaust, því í Mjóafirði eystra er langt frá Völvulæk og Völvukletti, sem Vilhjálmur Hjálmarsson (1914–2014), fyrrum alþingismaður og ráðherra, taldi „án efa gömul örnefni“, og að leiðinu að Reykjum við utanverðan fjörðinn, gegnt þorpinu. En svo gætu þessar framvísu konur líka hafa verið tvær og jafnvel uppi á ólíkum tíma. Annað útilokar því ekki hitt.

Marmaðurinn í Vík er athyglisverð frásögn í þessu sambandi. Hana er að finna í Grímu, 16. hefti 1941, þar sem hún var skráð árið 1907, eftir handriti Theódórs Friðrikssonar (1876–1948), skálds og rithöfundar, sem aftur byggði á sögnum úr Héðinsfirði: „Svo bar við fyrir löngu í Vík í Héðinsfirði, að margir sjómenn voru þar saman komnir að hausti til nokkru eftir göngur. Höfðu þeir vanalega hátt um sig á kvöldin, eftir það er dagsett var. Karl nokkur gamall, sem átti heima í Vík, varaði sjómenn þessa við því að hafa háreysti og læti svo seint á kvöldin, því að illt gæti af því hlotizt. Skeyttu sjómenn því engu, heldu gerðu þeir gys og háð að aðvörunum hans og kváðu hann vera orðinn elliæran.

Þá var það eitt kvöld um dagsetur, að sjómenn voru allir inni í baðstofu með hávaða og ill læti að vanda. Gekk karl þá út að gá til veðurs, en piltar héldu áfram leik sínum í baðstofunni og fóru að tala um það í gáska sín á milli, að brýnt mundi erindi karls út í svartnættið, enda dveldist honum furðu lengi. Í þeim svifum kom karl að utan og mælti alvarlega til allra, er inni voru, að nú væri ekki um annað að gera en að halda kyrru fyrir og steinþegja, hvað sem að höndum bæri; annars væri líf allra bæjarmanna í veði. Setti menn þá hljóða, og kúrði hver niður, þar sem hann var kominn. Leið eigi á löngu, þar til er umbrot og skarkali mikill heyrðist að framan; færðust ólætin og hávaðinn inn eftir göngunum, og lék baðstofan á reiðiskjálfi. Kom síðan ófreskja nokkur inn að pallskörinni og grúfði sig inn á pallinn; var hún í mannsmynd, en svo stór, að hún fyllti alveg upp í dyrnar, svartblá að lit og hvelja á öllum búknum; handleggirnir voru ekki lengri en svo, að svaraði til upphandleggja fram að olnbogum. Lagði þegar megnan ódaun um alla baðstofuna, en allir sátu sem steini lostnir og þorðu sig hvergi að hreyfa. Lá óvættur þessi stundarkorn í baðstofudyrunum og hnusaði við, er henni varð litið á fólkið. Hundur, sem legið hafði inni á gólfinu, stökk þá á fætur og ætlaði að glefsa í óvættina, en hún sletti öðrum handleggsstúfnum í hausinn á hundinum, svo að hann molaðist, en heilaslettur og blóð hreyttist um allt gólfið. Eftir það þokaðist óvætturin aftur fram í göngin, og heyrðust þá aftur umbrot og ólæti, líkt og þegar hún var að brjótast inn í bæinn. Síðan datt allt í dúnalogn. Að nokkurri stundu liðinni reis karl upp úr sæti sínu og sagði, að nú væri öllu óhætt og mættu piltar ganga fram til þess að sjá verksummerki eftir heimsókn óvættarinnar. Gekk karl fram á undan þeim, en þeir komu á eftir með hálfum huga. Hurðir allar voru mölbrotnar og bæjardyraþilið í spón þar á hlaðinu. Sagði karl við piltana, að þarna gætu þeir séð, hvað af því hlytist að fara ekki að sínum ráðum og hafa hátt á síðkvöldum þar við sjóinn. Var talið, að óvættur þessi væri marmaður, er eftir dagsetrið hefði runnið á gauraganginn og hávaðann í landi. Svo er sagt, að allt fram á þenna dag varist menn í Vík að hafa hátt á síðkvöldum, einkum á haustin, enda hefur aldrei síðan orðið vart við marmann þenna.“

Hafi ekki verið um ísbjörn að ræða — fátt annað kemur til greina úr dýraríkinu, hann getur virst æði dökkur ásýndum, einkum nýkominn af sundi, enda í raun blakkur á hörund, og á það aukinheldur til að standa á afturfótunum — mætti hugsa sér, að ónæðið vegna láta mannanna hafi framkallað þessa árás búandans í hólnum þar nærri, sem minnst var á hér áður. Það er kunnuglegt stef í álagabletta- og haugbúasögum.