Fara í efni
Menning

Vinirnir Bangsímon og Gríslingur í Freyvangi

Vinirnir Bangsímon og Gríslingi mæta senn á svið í Freyvangi, því sögufræga samkomuhúsi í Eyjafjarðarsveit, þar sem þeir munu leita íslenskra jólasveina næstu vikurnar. Þessir góðu erlendu gestir verða þar í boði Freyvangsleikhússins, í frumsömdu verki Jóhönnu S. Ingólfsdóttur.

 

Verkið byggir á þeim ástsælu Bangsímon og Gríslingi eftir breska skáldið A. A. Milne, sem Disney gerði ódauðlega, og blandast saman við klassískar Íslenskar verur sem allir þekkja. Frumsýning verður í Freyvangi á föstudaginn, 17. nóvember og verkið sýnt á aðventunni.

 

Bangsímon og Gríslingur eru komnir alla leið til Íslands til þess að finna Íslensku jólasveinana, þeir höfðu frétt af því að á Íslandi væru hvorki meira né minna en 13 jólasveinar,“ segir í tilkynningu frá Freyvangsleikhúsinu.

„Þegar sagan hefst þá eru þeir staddir í kofa á Íslandi og ætla að leggja af stað uppá fjall til þess að vita hvort þeir geti ekki fengið að hitta þá.

Ferðin gengur upp og ofan hjá þeim, en þeir hitta hinar ýmsu verur á leiðinni, eins og við er að búast á íslensku fjalli. Þeir halda þó ótrauðir áfram og reyna eftir fremsta megni að halda í trúna á það að þeim takist ætlunarverk sitt og með óbilandi trú á sjálfa sig og á hvorn annan.“ 

 

Eiríkur Bóasson samdi tónlist sérstaklega fyrir sýninguna, létta og skemmtilega, eins og segir í tilkynningunni „með bæði frumsömdum textum sem og vísum frá Jóhannesi úr Kötlum.“

 

Leikstjórn er í höndum Jóhönnu S. Ingólfsdóttur og er þetta í annað sinn sem hún leikstýrir stuttu barnaverki hjá Freyvangsleikhúsinu. Jóhanna hún leikstýrði einnig verkinu Karíus og Baktus fyrir jólin í fyrra.

 

„Verkið um Bangsímon og Grísling er einungis rúmur klukkutími að lengd, með hléi, og er því tilvalið fyrir yngstu kynslóðina.“ 

 

Nánari upplýsingar og miðasala á freyvangur.is, á Facebook síðu Freyvangsleikhússins, tix.is og í síma 857-5598.