Fara í efni
Menning

Viltu syngja með Pavarotti norðursins?

Michael Jón Clarke og Gísli Rúnar Víðisson - Pavarotti norðursins, eins og Michael Jón kallar hann stundum. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Hljómsveit Akureyrar er ekki þekkt fyrir að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur. Þar er mikill metnaður innanborðs og nýárstónleikar hljómsveitarinnar verða af dýrari gerðinni. Undir yfirskriftinni 'Klassískt nýárskonfekt' spilar hljómsveitin á morgun, laugardaginn 11. janúar kl. 20.00, í Glerárkirkju. Eins og jólatónleikar hljómsveitarinnar í fyrra, eru þessir líka styrktartónleikar. Í fyrra voru Matargjafir styrktar, en í ár verður það Grófin – Geðrækt. Michael Jón Clarke er stjórnandi hljómsveitarinnar og hann lofar fallegum tónleikum þar sem boðið verður upp á þekkt verk úr klassíska tónlistarheiminum í bland við jazz. 

Svo erum við búin að lofa því að gestir tónleikanna fái að syngja með og það verður staðið við það

„Hugmyndin með þessa tónleika var að velja ekkert nema rosalega fallega tónlist,“ segir Michael. „Það verður ekkert þungt, engin nútímatónlist. Ég safnaði saman mínum uppáhalds verkum, til dæmis Elvira Madigan, sem er hægi kaflinn í píanókonsert Mozarts. Það verður píanóleikarinn Alexander Smári Kristjánsson sem spilar hann. Þetta er svona verk sem allir þekkja þegar fyrstu nóturnar hljóma.“

Viltu syngja með Pavarotti norðursins?

Annað verk sem er vel þekkt, Nessun dorma, hin fræga aría úr lokakafla Turandot óperunni eftir Puccini, verður flutt á tónleikunum. „Það er Pavarotti norðursins, Gísli Rúnar Víðisson, sem mun flytja þessa stórkostlegu aríu,“ segir Michael. „Svo erum við búin að lofa því að gestir tónleikanna fái að syngja með og það verður staðið við það. Í efnisskránni verða leiðbeiningar og texti, en það er nefnilega kafli í þessu þar sem er kór. Þarna gætu tónleikagestir komið sterkir inn, en auðvitað er það bara til gamans gert og ekkert skilyrði að taka þátt.“ 

 

Einsöngvarar tónleikanna verða f.v. Helga Margrét Clarke, Gísli Rúnar Víðisson og Guðrún Ösp Sævarsdóttir. Myndir: aðsendar

Jazzinn fær líka sinn sess á tónleikunum, en Helga Margrét Clarke er jazzsöngkona og ætlar að heiðra Ellu Fitzgerald. „Það verða lög eins og I love Paris in the springtime og Lady be good á efnisskránni,“ segir Michael. „Guðrún Ösp Sævarsdóttir verður með okkur líka og hún tekur til dæmis perluna Ave Maria eftir Sigvalda Kaldalóns.“

Góð tónlist – gott málefni

„Ég hef sjálfur staðið frammi fyrir því, að þurfa að leita mér hjálpar á andlega sviðinu,“ segir Michael, en það verður ókeypis inn á tónleikana en hvatt til frjálsra framlaga til styrktar Grófinni – Geðrækt. „Ég hef ekki nýtt mér starf Grófarinnar persónulega, en ég veit að það er gríðarlega mikilvægur staður fyrir marga. Það er myrkrið held ég, sem truflar mig. Ég er ekki fæddur hér og þetta er mér kannski í blóð borið, að þola illa skammdegið. Jafnvel er þetta eitthvað í genunum, pabbi minn var í sex ár í stríði og á hverjum degi bjóst hann við að deyja.“ Michael segir að það skipti ekki öllu hver ástæðan er, það sé einfaldlega of erfitt að vera í felum með þunga líðan og því mikilvægt að styðja stað eins og Grófina. 

„Okkur langar líka að geta boðið upp á tónleika ókeypis,“ segir Michael. „Margir hafa einfaldlega ekkert efni á því að sækja tónleika, eins og til dæmis jólatónleikarnir sem eru í boði á hverju ári. Það kostar mikið að mæta, fyrir venjulegt, vinnandi fólk. Við fáum Glerárkirkju, eins og við fengum að vera í Akureyrarkirkju í fyrra, sem er gríðarlega mikilvægt. Þar með hefur kostnaðurinn við tónleikana minnkað mikið.“ Tónleikarnir eru að nafninu til ókeypis, en þau sem geta og vilja leggja fram frjáls framlög sem renna til Grófarinnar. 

 

Einleikarar á tónleikunum f.v. Ásta Óskarsdóttir (fiðla), Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir (fiðla) og Alexander Smári Kristjánsson (píanó). Myndir: aðsendar

„Það er búið að leggja mikið á sig í aðdraganda tónleikanna. Við erum með tvo einleikara um helgina, annar er tannlæknir og hinn er prófessor í Háskólanum á Akureyri,“ segir Michael. „Hljómsveitarmeðlimir koma úr öllum áttum! Við erum með kvensjúkdómalækni, flugstjóra, lögfræðing og alls konar starfsstéttir koma hérna saman. Því er að fjölga, þessu fólki sem hefur tónlistina sem aðaláhugamál og æfir metnaðarfull verk samhliða annarri vinnu.“

Ég ætla til dæmis að spila með Synfóníuhljómsveit Austurlands í ár, eftir nokkra áratugi ætla ég að taka fram fiðluna og spila

Hljóðfæraleikararnir í Hjómsveit Akureyrar er áhugafólk og tekur þátt í verkefnum í sjálfboðavinnu. „Annars gengi þetta aldrei upp,“ segir Michael. „Það eru nokkrar áhugamannahljómsveitir, eins og við, um allt land og við erum í góðri samvinnu. Það er mjög skemmtilegt að sumt af þessu fólki fer á milli og tekur þátt í ólíkum verkefnum. Ég ætla til dæmis að spila með Sinfóníuhljómsveit Austurlands í ár; eftir nokkra áratugi ætla ég að taka fram fiðluna og spila.“ Michael verður líka með fiðluna á öxlinni í einu verki á tónleikunum á laugardaginn, og segir það skemmtilega tilbreytingu að vera farinn að æfa sig aftur á hljóðfæri fyrir tónleika, ekki bara að hugsa um utanumhaldið. 

Stökkpallur fyrir unga einleikara

„Það var alveg full kirkja á jólatónleikunum í fyrra, yfir 300 manns, sem var mjög hvetjandi fyrir áhugamannahljómsveit,“ segir Michael. „Um vorið héldum við svo tónleika með tónlist Grieg sem fengu frábærar viðtökur líka. Þar var ungur einleikari á píanó, Styrmir Þeyr, sem bauð upp á stórkostlegan flutning. Við höfum þetta svolítið að leiðarljósi, að geta gefið ungum og upprennandi einleikurum tækifæri til þess að koma fram með sinfóníuhljómsveit. Í ár ætlum við að endurtaka þetta, og Helga Diljá Jörundsdóttir, fiðluleikari að sunnan, mun spila fiðlukonsert eftir Mendehlson með okkur.“

Tónleikarnir sem Michael segir frá í lokin, þar sem ungi fiðluleikarinn ætlar að koma fram, verða haldnir í Hofi í júní og kallast 'Magnaði Mendehlson'. „Þessi fiðlukonsert er eitt af þessum verkum sem ég bendi á þegar fólk vill koma sér inn í klassíkina. Góð byrjun,“ segir Michael. 

HÉR er tengill á viðburðinn á Facebook