Fara í efni
Menning

Viltu senda Hrund sögu sem hún gæti nýtt í bók?

Hrund Hlöðversdóttir, sem sent hefur frá sér nokkrar ævintýrabækur síðustu ár, hætti sem skólastjóri Hrafnagilsskóla í vor og ákvað að snúa sér meðal annars að frekari skrifum. Nú er fullorðinsbók í smíðum og Hrund biðlar til fólks um að senda sér sögur sem gætu nýst henni við skrifin.

„Ég er að leita að sögum af fyrsta stefnumóti, sögum um ástina og lífið, frásögnum af því að vera í samböndum, hvernig þau byrja og enda,“ segir Hrund við Akureyri.net.

„Þetta gæti verið lýsing á allskyns atvikum sem einhver hefur upplifað í samböndum, viðreynslu, sambandssliti eða fyrsta stefnumóti, saga um eitthvað sem tengist því að vera skotin í einhverjum og það mættu líka vera pikköpp línur, bæði þær sem eru glataðar og þær sem hafa virkað.“ 

Hægt er að senda Hrund sögu rafrænt, „og auðvitað er allt saman nafnlaust,“ segir hún til áréttingar.

  • SMELLIÐ HÉR TIL AÐ SENDA HRUND SÖGU

Hrund hefur komið sér fyrir í Digterhjemmet á Fanø, eyju á Vestur-Jótlandi í Danmörku. „Hér ætla ég að dvelja til loka september við ritstörf. Verkefni næstu mánuði er að skrifa næstu bók og nú er það sem sagt fullorðinssaga sem er á teikniborðinu. Bókin ber vinnuheitið Skvísur í krísu og má segja að hún verði í anda sjónvarpsþáttanna Sex and the city en um íslenskan raunveruleika fólks á miðjum aldri. Í bókinni eru tvær ólíkar sögur sem tvinnast í lokin í einn söguþráð,“ segir Hrund.

„Annars vegar fylgjast lesendur með ungum hermanni sem kemur til Íslands frá Bandaríkjunum í kringum 1943. Hann er um tvítugt og þekkir ekkert til landsins, veit ekki á hvers konar krummaskuði hann er lentur!“

Sögusviðið er herkampurinn á Skálum á Langanesi. „Lífið snýst um að finna sér afþreyingu því það eru engin stríðsátök og ekkert sem í raun gerist. Hann kynnist stúlku en það eru alls konar hindranir sem reyna að stía þeim í sundur,“ segir Hrund

„Hin sagan fjallar um konu á miðjum aldri sem er að ganga í gegnum skilnað,“ segir rithöfundurinn. Sú á fjórar vinkonur sem hittast einu sinni í viku og þar ber ýmislegt fyndið á góma sem Hrund segir án efa ótrúlega marga tengja við. „Sögurnar sem fólk sendir mér gætu ratað inn í þennan hluta bókarinnar.“