Vilja tryggja aðstöðu áhugafólks til frambúðar
Tónlistarbandalag Akureyrar (TBA) var stofnað nýverið með það fyrir augum að leita samstarfs við bæjaryfirvöld á Akureyri um vandaða greiningu á þörfum og óskum tónlistarhópa áhugafólks. Hugmynd forráðamanna TBA er að unnt yrði að nota þá greiningu í samtali við ríkisvaldið um menningarsamninga og leggja til grundvallar þróun og uppbyggingu á metnaðarfullri og hagkvæmri aðstöðu fyrir æfingar og viðburðahald, eins og segir í tilkynningu.
Erindi í þessa veru hefur verið komið á framfæri við bæjarráð Akureyrar, „með ósk um að fá að kynna málefni og aðstöðu þeirra hópa sem starfa á vettvangi frjálsrar þáttöku sjálfboðaliða í tónlist eða á tónlistartengdum vettvangi – oftast án allra launa – þannig að kraftar aðila megi nýtast sem best til menningarsköpunar og aukinna lífsgæða í Höfuðstað Norðurlands.“
Ekki það rými í Hofi sem vonast var eftir
Í minnisblaði frá TBA segir að oft hafi verið rætt „og í mismunandi samhengi hvernig aðstöðu til æfinga og viðburða og tónleika megi koma upp á Akureyri og þá þannig að ekki verði alltof íþyngjandi fyrir starfsemi frjálsra hópa listafólks, kóra og hljómsveita – af mismundandi stærðum og samsetningu. Með byggingu og starfrækslu Menningarhússins Hofs og Menningarfélags Akureyrar undir verndarvæng Akureyrarbæjar og með tiltekinni kostnaðarþáttöku ríkisins – væntu margir að rými mundi verða fyrir fleiri hópa heldur en raunin hefur orðið.“
Markmið þess samtals eða samstarfs við Akureyrarbæ sem TBA óskar eftir er:
- Formleg þarfagreining verði gerð á óskum og þörfum starfandi hópa á sviði tónlistar áhugafólks og tónlistartengdra hópa fyrir æfingahúsnæði og viðburðahald/tónleika (samanber samstarf Akureyrarbæjar og ÍBA á vettvangi íþróttamála.)
- Að leita leiða til samstarfs við bæjaryfirvöld á Akureyri varðandi uppbyggingu og/eða rekstur æfingahúsnæðis og hentugra sala fyrir viðburði og tónleikahald þessarra hópa.
- Að láta reyna á pólitískan vilja til að frjálst tónlistarstarf njóti beinnar og óbeinnar verndar yfirvalda og samningsbundinnar kostnaðarþátttöku og verði þar með virkur og sýnilegur þátttakandi í þeim menningarsamningi sem íslenska ríkið tekur þátt í að fjármagna með höfuðstöðvar á Akureyri.
Hluti af heilbrigðu samfélagi
„Aðilar á vettvangi Tónlistarbandalags Akureyrar/TBA árið 2023 eiga bakland í mismunandi fjölda virkra þátttakenda á hverjum tíma. Verðmæti þess starfs er ekki auðvelt að tölufesta enda alls ekki eingöngu efnahagslegt heldur jafnframt og ekki síður mjög mikilvægt í menningarlegu tilliti og þau lífsgæði sem slíkt starf veitir bæði þátttakendum og neytendum er óumdeilt afar jákvæður hluti af heilbrigðu samfélagi,“ segir í minnisblaðinu. Minnt er á að árið 2018 hafi þáverandi mennta og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, vísað sérstaklega til mikilvægis menningarhúsa á landsbyggðinni „fyrir fjölbreytni, sköpun og frumkvæði á sviði lista og menningararfs“ – þar sem „landsmenn fái notið lista og menningar og geti tekið þátt í slíku starfi.“
Í minnisblaðinu segir að bæjarbúar þurfi ekki einungis tækfæri til að njóta menningar á vegum fagfólks, „einnig er hér stór hópur bæjarbúa sem vill upplifa tónlist, dans og aðra menningu með eigin framlagi, sér til ánægju, sáluhjálpar og lýðheilsu. Þann hlut menningar má ekki vanmeta. Metnaður vaxandi þéttbýlis og meginkjarna á landsbyggðinni – með mögulegan borgarstatus – hlýtur að standa til þess að byggja upp veglega umgjörð og hlú að starfi frjálsra hópa í tónlist og fleiri listum á Akureyri til framtíðar.“
Tónlistarbandalag hið fyrra var mikilvægt
Félagsskapur með sama nafni var stofnaður fyrir miðju síðustu öld.
„Tónlistarbandalag Akureyrar varð fyrst til á árunum 1945-1946 þegar Karlakórinn Geysir og Karlakór Akureyrar og Tónlistarfélag Akureyrar, Lúðrasveit Akureyrar og Kantötukór Akureyrar stofnuðu til samvinnu,“ segir í tilkynningu frá TBA. „Afrakstur þeirrar samvinnu varð stofnun Tónlistarskólans á Akureyri og bar Tónlistarbandalag Akureyrar ábyrgð á rekstri Tónlistaraskólans sem eigandi og bakhjarl allt til þess að Akureyrarbær tók skólann að fullu yfir árið 1990.“
„Upphafleg hugmynd um samstarfið 1945 snerist um að koma upp tónlistarhúsi – fyrir æfingar og viðburði frjálsra tónlistarhópa í bænum. Ekki hafa væntingar forystufólks tónlistarhópa eða tónlistartengdra hópa á Akureyri farið eftir að því er varðar hagstætt æfingahúsnæði fyrir fjölbreytta hópa né heldur að til boða standi hagkvæmt og viðeigandi hús eða salir til viðburðarhalds með þeim kjörum sem auðvelda eða efla slíkt starf.“