Fara í efni
Menning

Víkingur Heiðar á tvennum tónleikum

Píanósnillingurinn Víkingur Heiðar Ólafsson leikur verk eftir Debussy og Rameau á tvennum tónleikum í Hofi um miðjan mars. Gert var ráð fyrir einum tónleikum en þar sem nær uppselt er á þá hefur verið ákveðið að bæta við öðrum og hefst miðasala á þá í dag.

Tónleikarnir voru upphaflega á dagskrá í október á síðasta ári. Tilefnið var 10 ára afmæli menningarhússins Hofs og 50 ára afmæli Listahátíðar í Reykjavík. Kórónuveirufaraldurinn kom í veg fyrir að píanóveislan væri haldin þá, en nú er komið að henni. Víkingur lék einmitt á fyrstu tónleikunum í Hofi, með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, síðsumars 2010.

Fyrri tónleikarnir verða laugardaginn 13. mars og hann sest aftur við flygilinn daginn eftir. 

Smelltu hér til að kaupa miða

Víkingur Heiðar er meðal eftirsóttustu einleikara sinnar kynslóðar. Hann hlaut á síðasta ári hin virtu þýsku tónlistarverðlaun; Opus Klassik sem píanóleikari ársins, annað árið í röð. Í þetta sinn var hann verðlaunaður fyrir upptöku sína á verkum frönsku tónskáldanna Debussy og Rameau sem hefur hvarvetna hlotið einróma lof. Víkingur mun á tónleikunum í Hofi flytja efnisskrá þeirrar einleiksplötu, sem kom út hjá Deutsche Grammophon á síðasta ári. Á fyrri hluta tónleikanna vefur hann saman hljómborðsverkum Claude Debussy og Jean-Philippe Rameau og flytur að lokum eitt helsta meistaraverk rússneskra tónbókmennta, Myndir á sýningu eftir Modest Músorgskíj, í mikilfenglegri umritun eftir Vladimir Horowitz. Víkingur Heiðar flytur hér sömu efnisskrá og á opnunartónleikum Listahátíðar í Reykjavík á síðasta ári í Hörpu.

Á komandi tónleikaárum mun Víkingur gegna stöðu staðarlistamanns við nokkur helstu tónlistarhús heims. Í fyrra var hann staðarlistamaður Konzerthaus í Berlín og á þessu starfsári gegnir hann sömu stöðu hjá Southbank Centre í London. Meðal hljómsveita sem hann mun koma fram með á næstunni má nefna Fílharmóníusveitirnar í Los Angeles og New York, Santa Cecilia í Róm, Sinfóníuhljómsveitina í San Francisco og Cleveland-hljómsveitina. Þá eru einnig fyrirhugaðir debut-tónleikar hans í Carnegie Hall í New York.

Víkingur Heiðar á fyrstu tónleikunum í Hofi síðsumars 2010. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.