Fara í efni
Menning

„Við myndum vilja sjá skaðaminnkunarhús á Akureyri“

Edda Ágrímsdóttir og Berglind Júlíusdóttir í fræðsluferð í Berlín. Aðsend mynd

„Frú Ragnheiður gefur einstaklingum sem nota vímuefni í æð fría nálaskiptaþjónustu,“ segir Edda Ásgrímsdóttir. „Skjólstæðingar koma í bílinn okkar og fá allan búnað sem þeir þurfa til að nota og fyrirtæki í bænum gefa okkur heitan mat sem við gefum skjólstæðingum. Sálrænn stuðningur er líka mjög stór hluti af starfinu okkar.“

Frú Ragnheiður er eina skaðaminnkunarúrræðið á Akureyri fyrir fólk sem notar vímuefni í æð. Starfið er á vegum Rauða krossins og er í boði á Akureyri, höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Edda Ásgrímsdóttir og Berglind Júlíusdóttir eru hjúkrunarfræðingar og hópstjórar í verkefninu hérna fyrir norðan en þær hafa unnið í úrræðinu síðan 2018. Þær hafa kynnst af eigin raun þeim miklu áskorunum sem skjólstæðingar þeirra á Akureyri mæta. Blaðamaður Akureyri.net hitti þær í húsnæði Rauða krossins til þess að forvitnast um starfið og fræðsluferð þeirra til Berlínar fyrr á árinu.

Edda og Berglind fóru í fræðsluferð til Berlínar í apríl, en hér fengu þær að taka vakt í gistiskýli fyrir heimilislausa þar í borg. Myndir úr einkasafni.

Mikil fjölgun heimsókna frá 2018

„Fyrsta vaktin okkar á Akureyri var 4. janúar 2018,“ segir Edda. „Fyrsta árið komu ekki margir, heildarfjöldi heimsókna í bílinn 2018 voru u.þ.b. 40. Þetta hefur svo spurst út og og verkefnið unnið sér inn traust, í fyrra voru heimsóknirnar í bílinn tæplega 600. Þannig að það er alveg ljóst að þörfin er mikil.“ Það er mikið til sama fólkið sem nýtir sér þjónustu Frú Ragnheiðar, en Edda og Berglind segja að það komi alltaf reglulega inn nýtt fólk, það sé til dæmis meira að gera á sumrin. Árið 2023 var 41 einstaklingur sem leitaði í nálaskiptaþjónustu verkefnisins og tíu til viðbótar sem leituðu til verkefnisins til að fá Nyxoid nefúðann. Um er að ræða nefúða sem getur komið í veg fyrir ofskömmtun vegna notkunar á ópíóíðum.

Heimilisleysi á Akureyri er staðreynd

Það var held ég fyrsta árið sem við störfuðum á Akureyri með Frú Ragnheiði, að við tókum eftir því að skjólstæðingar okkar voru ekki alltaf með öruggt húsnæði,“ útskýrir Berglind. „Við reyndum að vekja athygli á þessu, en okkur skorti töluleg gögn til að styðja við það sem við vorum að upplifa.“ Hjá Akureyrarbæ er stefnan að útvega öllum sem þurfa félagslega íbúð, en biðlistinn er misjafnlega langur og löng bið getur augljóslega reynst fólki í þessari stöðu erfið. „Skjólstæðingar okkar lenda kannski í ofbeldi, til dæmis, og þá er mjög alvarlegt að eiga ekki í nein hús að venda,“ bætir Berglind við. Kvennaathvarfið á Akureyri tekur við konum sem lenda í heimilisofbeldi, en þar er ekki tekið við fólki sem er í neyslu.

Við þurfum stundum að senda fólk heim sem hefur engan öruggan stað að fara á

„Allt sem við tölum fyrir hérna, er eitthvað sem við höfum reynslu af,“ segir Berglind. „Við þurfum stundum að senda fólk heim sem hefur engan öruggan stað að fara á.“ Umfang heimilisleysis á Akureyri er ekki auðvelt að áætla, en Edda og Berglind segja að í skjólstæðingahóp Frú Ragnheiðar séu allavega fimm einstaklingar í þessari stöðu í dag. „Við erum samt náttúrulega bara með fólk sem notar vímuefni í æð og vitum því ekki um umfang heimilisleysis hjá fólki sem notar ekki þjónustu Frú Ragnheiðar,“ tekur Edda fram. „Við upplifum þetta sem vaxandi vandamál og stór hluti ástæðunnar fyrir ferðinni til Berlínar var að skoða úrræði varðandi heimilisleysi.“ Berglind bendir á mikilvægi þess að skoða hvaða úrræði væri hægt að skapa hérna, áður en að vandamálið stækkar.

„Heimilisleysi þýðir ekki endilega að fólk sofi á götunni,“ segir Edda. „Fólk á ekki heimili, en hefur afdrep hjá öðrum. Kannski eru margir saman í einni íbúð, eða eitthvað slíkt. Ef það slettist upp á vinskapinn, kemur það fólki í erfiða stöðu.“

Fræðsluferð til Berlínar

Stjórnendateymi Frú Ragnheiðar á Akureyri hefur unnið að því undanfarið að reyna að bæta aðbúnað skjólstæðinga sinna, ásamt því að kortleggja betur þjónustuþarfir þeirra til að átta sig á því hvort bæta þurfi við úrræðum á svæðinu. Af því tilefni fóru Edda og Berglind til Berlínar í lok apríl síðastliðnum til þess að heimsækja skaðaminnkunarúrræði og læra af víðtækri reynslu úrræða þar í borg „Við erum alltaf að leita leiða til þess að bæta þjónustuna hérna,“ segir Berglind. „Við teljum þörfina mikla.“

Myndir sem Edda og Berglind tóku í gistiskýlinu fyrir heimilislausa í Berlín. Þar er líka öruggt neyslurými fyrir fólk í neyslu.
 

Eitt af því mikilvægasta sem Edda og Berglind taka með sér heim frá Berlín, er samvinna milli úrræða. „Við myndum gjarnan vilja hafa meira samráð á milli allra sem þjónusta jaðarsetta einstaklinga og við myndum vilja sjá landsdekkandi þjónustu fyrir allt þetta fólk þar sem öll úrræðin sem eru til staðar vinna gott starf saman,“ segir Berglind. „Við heimsóttum til dæmis skaðaminnkunarúrræði sem heitir Fixpunkt í Berlín og er fjármagnað af ríkinu. Þar er sá háttur á að stjórnvöld koma til þeirra þegar upp koma vandamál og málin eru leyst í sameiningu.“

„Þau eru með bíla eins og við og nokkur neyslurými,“ segir Edda. „Þau eru líka með heilbrigðisbíl sem fer um og skimar fyrir lifrarbólgu, eru með hóp sem fer á skemmtistaði og kemur til aðstoðar með hreinan búnað og fræðslu. Bæjaryfirvöld óskuðu til dæmis eftir því að lengja opnunartíma neyslurýmanna, og lagði til fjármagn til þess að það gæti gerst. Það er ólíkt því sem við sjáum hér á landi.

Edda upplifir að við séum stundum svona 15-20 árum á eftir þegar kemur að umræðu um skaðaminnkun

„Það sem sló okkur svolítið eftir þessa ferð, er að hérna heima erum við ennþá oft í þeirri baráttu, að þurfa að verja skaðaminnkun,“ segir Berglind. „Fáir í Berlín virðast efast um gildi og nauðsyn skaðaminnkunar.“ Edda tekur undir þetta og upplifir að við séum stundum svona 15-20 árum á eftir þegar kemur að þessari umræðu. „Í Berlín voru komnir sjálfsalar með hreinan búnað árið 1988, og þjónustan verið í stöðugri þróun síðan þá.“

Sjálfsali frá Fixpunkt í Berlín með hreinum búnaði. Myndi úr einkasafni Eddu og Berglindar

Hægt að gera betur

„Við ákváðum að 2024 yrði árið þar sem við einbeitum okkur svolítið að þessari vinnu, að skoða þróun og bætingu úrræða fyrir okkar hóp,“ segir Edda. Blaðamaður spyr, hvers Edda og Berglind myndu helst óska sér, ef þær fengju að ráða. „Ég myndi vilja sjá skaðaminnkunarhús á Akureyri,“ segir Berglind. „Þar væri allt til alls. Betra væri ef það væri kynjaskipt, en það er ekki nauðsynlegt. Þar væri neyslurými og gistiskýli, og það þyrfti ekki einu sinni það mörg pláss.“ Í Fixpunkt í Berlín voru félagsráðgjafar í flestum úrræðum, þannig að notendur gætu fengið fræðslu um stöðu sína og á hverju þau eiga rétt. „Það væri óskastaða líka. Auðvitað væri svo líka nálaskiptaþjónustan á sínum stað. Við og sjálfboðaliðarnir okkar myndum vera alsæl ef staðan væri svona.“

Hér á Akureyri er ekki mikið um heróín, þó að það sé mikið af ópíóíðum í umferð, en skjólstæðingar okkar segja að það sé allt í boði, en bara mismikið hverju sinni

Í Berlín hefur þessi hópur líka betra aðgengi að sérþjálfuðum heimilislæknum sem geta veitt viðhaldsmeðferð. „Þá fær fólk aðstoð við að trappa sig með öruggum hætti niður úr notkun efna,“ segir Edda. „Eins og staðan er í dag er sú meðferð bara í boði á Vogi, hérna á Íslandi.“ Berglind bætir við, að í Berlín sé mikil heróínneysla og það er verkefni að fara í gang, þar sem læknar ætla að gefa fólki heróín, í æð, undir eftirliti. Hægt og bítandi er svo heróínskammturinn minnkaður til móts við viðhaldslyf. „Það sýnir hvað skaðaminnkun er mikið lengra komin þarna úti,“ segir Berglind.

Blaðamaður spyr, hvaða efni er mest verið að nota hérna á Akureyri. „Hér á Akureyri er ekki mikið um heróín, þó að það sé mikið af ópíóíðum í umferð, en skjólstæðingar okkar segja að það sé allt í boði, en bara mismikið hverju sinni,“ segir Edda.

Margþættur ávinningur af skaðaminnkun

„Skaðaminnkunarúrræði eru alltaf fjárhagslegur ávinningur,“ segir Berglind. „Fyrir þau sem hugsa um peninga, þá er það alltaf betra fyrir kerfið að sinna skaðaminnkun, meðferð við Lifrarbólgu C kostaði til dæmis 11 milljónir fyrir einn einstakling, þegar við vorum að vinna lokaverkefnið okkar, í hjúkrunarfræði, um þessi mál árið 2017. Það hefur eflaust hækkað töluvert. Með nálaskiptaþjónustunni getum við komið í veg fyrir sýkingar og aðra smitsjúkdóma.“

Ef við ætlum alltaf að jaðarsetja einstakling þá kemst hann síður upp úr sínum erfiðleikum. Þetta snýst líka um valdeflingu

Edda og Berglind segja að aðalávinningurinn sé vissulega fyrir einstaklinginn sem fær þjónustuna. „Þetta bætir þeirra lífsgæði og þar með kemur ef til vill meiri hvatning til bata,“ segir Edda. „Við eigum aldrei frumkvæði að því að skjólstæðingar hætti að nota vímuefni, við mætum fólki þar sem það er statt hverju sinni,.“ Berglind bætir við að þetta snúist um að sýna fólki virðingu. „Ef við ætlum alltaf að jaðarsetja einstakling þá kemst hann síður upp úr sínum erfiðleikum. Þetta snýst líka um valdeflingu.“

„Það er allt á jafningjagrundvelli í bílnum okkar,“ segir Edda. „Fallegt samband hefur skapast á milli skjólstæðinga, okkar og sjálfboðaliða Frú Ragnheiðar.“

 

Vert er að minnast á að Rauði krossinn er um þessar mundir með könnun í gangi varðandi skaðaminnkunarþjónustu á Akureyri. HÉR eru allar upplýsingar um könnunina.

Grein sem Edda og Berglind sendu Akureyri.net á síðasta ári um starfsemina má lesa HÉR.