„Við erum öll getin í sömu skálinni“
Hallgrímur Helgason rithöfundur sendi nýlega frá sér bókina Sextíu kíló af sunnudögum, þá síðustu í þríleiknum um Gest Eilífsson og síldarævintýrið í Segulfirði, og hefur nú sett saman dagskrá um og uppúr bókunum þremur. Dagskrána frumsýndi Hallgrímur í Borgarleikhúsinu á dögunum og nú liggur leiðin norður.
Hallgrímur verður á Siglufirði – Segulfirði – á miðvikudaginn og í Hofi á Akureyri á fimmtudaginn, 28. nóvember, klukkan 19.30.
Fyrri bækurnar tvær, Sextíu kíló af sólskini og Sextíu kíló af kjaftshöggum, fengu mjög góðar viðtökur og Hallgrímur hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir báðar.
Ótrúlega góð viðbrögð
Hugmyndina að dagskránni kveðst Hallgrímur hafa fengið þegar hann var að ljúka við þríleikinn: „að gera smá kvölddagskrá úr bókunum þremur; spjalla um þær, gera grein fyrir því hvernig ég fékk hugmyndina að þeim. Fólk er oft að spyrja sömu spurninganna, ég svara þeim og les valda kafla.“ Hallgrímur glæðir persónurnar lífi með mismunandi röddum. „Þeim röddum sem ég heyri þegar ég skrifa,“ segir hann.
„Ég renndi alveg blint í sjóinn,“ segir Hallgrímur um dagskrána. „Fólk sagðist ekkert vita hverju það átti von á og ég var heldur ekki viss sjálfur og vissi varla hvað ég ætti að kalla þetta; leiksýning er ekki rétta orðið, frekar kvölddagskrá eða sagnaskemmtun,“ segir hann. „En þetta gekk vonum framar og viðbrögð voru ótrúlega góð.“
Fólk sem sótti dagskrá Hallgríms í Borgarleikhúsinu hafði áhuga á að vita á hvaða persónum hann byggi í bókunum og hvar hann hafi rekist á þetta og hitt, segir hann. Spurt var: Er þetta skáldskapur eða byggt á heimildum? Hvernig kviknaði hugmyndin að seríunni? Af hverju Siglufjörður?
„Mér finnst það reyndar liggja í augum uppi. Þetta síldarævintýri, sem stóð í meira en 60 ár, var ótrúlegur viðburður og breytti Siglufirði úr krummaskuði í stórborg. Siglufjörður á síldarárunum er eina stórborgarlífið sem Ísland hefur séð,“ segir Hallgrímur. „Gömul kona sagði mér frá því þegar hún kom til London í fyrsta sinn, komin yfir áttrætt og gekk, út á Oxford stræti, eina mestu umferðargötu heims. Þá varð henni að orði: Þetta er bara eins og heima á Aðalgötunni í gamla daga.“
Hvernig væri að lýsa þessu í skáldsögu?
Kveikjurnar að sögunni voru þrjár, að sögn höfundarins. „Ég fjalla um þær í sýningunni og vil því ekki segja of mikið.“ Hann stenst þó ekki mátið og veitir ofurlitla innsýn í málið. „Fyrsta hugmyndin kom á Síldarminjasafninu; þar voru tvær myndir hlið við hlið, frá 1890 og 1930, og munurinn var svo sláandi að ég hugsaði strax: hvernig væri að lýsa þessu í skáldsögu? Á fyrri myndinni voru þrjú hús og á þeirri var Siglufjörður orðinn 10 þúsund manna bær.“
Svo nefnir Hallgrímur að hann hafi sjálfur svolitla tengingu við Siglufjörð. „Ég keppti þar í unglingaflokki á Íslandsmóti á skíðum 1975 og komst þá í fyrsta skipti á séns, með stelpu frá Akureyri. Staðurinn hefur því alltaf einhvern ljóma í huga mér!“
Hann nefndi stórborgina Siglufjörð og sannleikurinn er sá að ótrúlega margir virðast eiga rætur að rekja þangað eða tengjast staðnum á einhvern hátt. „Já, þótt fólk hafi bara verið þarna eitt sumar hefur það bundist staðnum. Margir tala um einhver tengsl,“ segir höfundurinn og bætir við: „Það voru svo margir á Siglufirði á þessum árum að helmingur Íslendinga er kannski getinn í Hvanneyrarskál,“ segir Hallgrímur Helgason og bætir síðan aðeins í: „Við erum öllum getin í sömu skálinni!“