Fara í efni
Menning

„Veruleikir“ Úlfs Karlssonar í Deiglunni

Myndlistarmaðurinn Úlfur Karlsson opnar sýningu á teikningum í Deiglunni í Listagilinu á morgun, föstudag 20. september, klukkan 16.00.

Úlfur útskrifaðist frá Valand, Listaháskólanum í Gautaborg árið 2012. Síðan hefur hann haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum á Íslandi og víða um Evrópu, og verk eftir hann má finna í einkasöfnum safnara, m.a. á Íslandi, í Austurríki og í Svíþjóð, að því er segir í tilkynningu.

„Úlfur er þekktastur fyrir málverk í ofurstærðum en á sýningunni í Deiglunni eru 29 teikningar, stundum skissur að stærri verkum, málaðar á árinu,“ segir þar.

„Í sviðsmyndum seríunnar Do not Disturb er leitað í svefnherbergi einræðisherra, t.d. Hoxha, Napóleons, Pútíns og Stalíns því eins og segir í sýningartexta þá erum við öll viðkvæm þegar við sofum og þó þú sérst umkringdur þeim sem eiga að verja þig þá ertu aldrei viss, getur ekki treyst hundrað prósent. En þarna eru líka litríkar sviðssetningar á Veruleikunum og búningar og bílar í misjöfnu ásigkomulagi.“

Sýningin verður opin á morgun, föstudag, frá kl. 16.00 til 20.00, á laugardag kl. 15.00 - 19.00, og á sunnudaginn, 22. september, kl. 13.00 - 17.00

Vefur Úlfs Karlssonar