Fara í efni
Menning

Verslun og þjónusta í gamla náðhúsinu

Skýringarmynd af rýminu undir kirkjutröppunum og við þær. Skjáskot úr tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir byggingarreit Hafnarstrætis 87-89.

Fyrirhugað er að nýta rými undir kirkjutröppunum við Akureyrarkirkju, áður nýtt undir náðhús fyrir margt löngu, sem verslunar- og þjónusturými. Auglýst hefur verið tillaga um breytingu á deiliskipulagi fyrir Hafnarstræti 87-89 og reiturinn stækkaður þannig að deiliskipulagsreiturinn innihaldi rýmið undir kirkjutröppunum, sem nú er utan byggingarreits.

Breytingin felst í stækkun byggingarreits á lóð Hafnarstætis 87-89 vegna fyrirhugaðrar stækkunar og nýtingar rýmisins undir verslun og þjónustu. Hugmyndin er að stækka rýmið undir kirkjutröppunum um 70 til 90 fermetra, loka og nýta um 70 fermetra rými í undirgöngunum sem þarna eru. Hönnun stækkunarinnar er sögð miðast við að byggingin falli vel inn í umhverfið og skerði sem minnst ásýnd kirkjutrappanna og Akureyrarkirkju. Þá er einnig miðað við að breyta hluta bílastæða norðan við rýmið í útisvæði sem yrði nýtt í tengslum við verslunar- og þjónusturými. 

Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna er til 3. apríl.


Byggingarreitur Hafnarstrætis 87-89 fyrir og eftir breytingu sem verður ef deiliskipulagstillagan verður samþykkt.