Fara í efni
Menning

Já, ráðherra – en þú ferð ekki hér í gegn!

Mynd: Skapti Hallgrímsson

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – 58

Handboltamaðurinn ungi, sem reynir þarna að brjótast í gegnum vörn Fram í efstu deild Íslandsmótsins laugardaginn 4. janúar árið 1986, var markahæsti KA-maðurinn í tveggja marka sigri, 26:24. Gerði sex mörk og lék mjög vel í hægri horninu að mati þess sem þetta skrifar og fjallaði um leikinn í Morgunblaðinu á sínum tíma.

Ekki liggur fyrir hvort mikið var rætt um stjórnmál í búningsklefa KA á þessum árum en KA-mennirnir tveir næst myndavélinni fetuðu altjent báðir hina pólitísku braut; hægra megin er Guðmundur Baldvin Guðmundsson sem lengi var bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri og sá með boltann sat einnig um tíma í bæjarstjórn, fyrir Samfylkinguna. Hann hefur setið á Alþingi síðan 2016 og er, frá og með deginum í dag, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra í ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttir. Það er sem sagt Logi Már Einarsson sem þarna gerir tilraun til að bæta við marki en virðist ekki hafa haft erindi sem erfiði í þetta skipti. En sá hló best sem síðast hló, þennan dag eins og svo oft áður og síðar.

Ekki var hægt að sleppa tækifærinu til að birta hana þessa sem gömlu íþróttamyndina í dag. Til hamingju með ráðherraembættið, Logi Már!