Veiruhræðsla og geðheilsa
Gunnar Kr. Jónasson opnar myndlistarsýningu í Hofi á laugardaginn. Á sýningunni, sem Gunnar kallar Formglíma blek og blý, og stendur út október, eru bæði litlar blýantsteikningar þar sem umfjöllunarefnið er annars vegar veiran alræmda og hins vegar skapsveiflur, og stórar myndir, sem hann segir fyrirboða skúlptúra.
Síðast sýndi Gunnar árið 2017, í Norðurlandahúsinu í Óðinsvéum, þeirri fallegu borg á Fjóni í Danaveldi. „Þar sýndi ég teikningar úr Mývatnssveit, hafði skrásett flugleiðir flugnanna – sem geta orðið skrýtnar!“ segir hann. Þegar Gunnari bauðst að sýna í Hofi nú, á stórafmæli Akureyrarbæjar, þáði hann það vitaskuld með þökkum.
Blýanturinn er enn í stóru hlutverki, að þessu sinni nýtti listamaðurinn það góða verkfæri m.a. til þess að koma veirunni alræmdu á pappír. „Sumir vöknuðu af þeim vonda draumi að hafa ekki hjálpað einhverjum sem minna mátti sín; höfðu lokað sig inni í einskonar Covid kassa í stað þess að fara út og kaupa kaffipakka eða köku handa einhverjum sem gat það ekki. Ég varð að passa mig vegna hjartasjúkdóms og gat ekki farið þá leið en hófst handa við það mikilvæga verkefni að fást við veiruna að þessu leyti,“ segir Gunnar við Akureyri.net.
Veira Gunnars birtist fólki á pappír á veggjum Hofs, ekki þó sú vísindalega rétta heldur „eru myndirnar huggulegur skáldskapur og ég vona að þær geti framkallað gleðitilfinningu, andstætt þeirri tilfinningu sem við fundum þegar fréttist að veiran væri á leiðinni.“
Gunnar heima í vinnustofu sinni við tvö verkanna sem hann sýnir í Hofi.
Blýantinn notaði listamaðurinn einnig til að gera skapsveifluteikningarnar, sem hann kallar svo, og prýða nú líka veggi menningarhússins.
„Flestir kannast við að missa tökin örstutta stund þegar betra væri að draga andann nokkrum sinnum djúpt; áður en einhver ónot eru látin fjúka eða þegar menn gera einhvern andskotann sem þeir sjá eftir og hafa ef til vill ekki manndóm í sér að biðjast afsökunar. Alls kyns rugl hefur sundrað heilu fjölskyldunum,“ segir Gunnar um tilurð þeirra mynda. Þeim sé ætlað, eins og veiruteikningunum, að veita áhorfandanum hugarró, öfugt við það sem almennt gerist innra með fólki við þessar aðstæður. Þær geti virkað sem minnispunktur uppi á vegg um það að draga andann djúpt ... Þarna sé hann því í raun að takast á við geðheilbrigði þjóðarinnar!
Svo eru það stóru verkin á sýningunni. Þau vinnur hann á handgerðan, nepalskan pappír – lifandi pappír, eins og hann orðar það. Gunnar teiknar form, sker út og litar með svörtu bleki. „Það er alveg öruggt mál að þessi form verða einhvern tíma að skúlptúr hjá mér,“ segir hann, og það blasir í raun við.