Varðveita þarf efni fleiri fjölmiðla en RÚV
„Við eigum að vernda menninguna og málið og það gerum við með því að geyma vandlega það sem sagt hefur verið, ritað og myndað. Um þetta þarf að setja lög og reglur. Það má ekki bíða til endaloka veraldar.“
Svo skrifar Sverrir Páll Erlendsson, fyrrverandi menntaskólakennari, í pistli sem birtist á Akureyri.net í dag. Nýlega var frá því greint að Ríkisútvarpið sé að senda 12.000 segulbandsspólur til Belgíu til að láta færa þær yfir á stafrænt form til öruggari varðveislu en talið er að böndin ein dugi.
Ríkisútvarpinu er skylt skv. lögum að varðveita efni sem ætla má að hafa menningarlegt og sögulegt gildi fyrir íslensku þjóðina en Sverrir bendir á að efni ýmissa annarra fjölmiðla sé einnig mikilvægt og nauðsynlegt sé, að hans mati, að settar séu reglur um annað efni en Ríkisútvarpsins. Nýlega hafi t.d. tvær sjónvarpsstöðvar lagt upp laupana, N4 og Hringbraut. Í safni þeirra sé margvíslegt efni sem hafi bæði menningar- og fræðslugildi. „Hvað verður um þetta? Verður þetta varðveitt? Hver gerir það? Er þetta þá aðgengilegt þeim sem vilja fá að gægjast aftur í tímann? Og þannig má lengi spyrja.“
Smellið hér til að lesa pistil Sverris Páls