VÆB, líf, litir og fjör á Barnamenningarhátíð

Barnamenningarhátíð er árleg veisla fyrir æskuna hjá Akureyrarbæ. Ekki bara æsku barnanna, heldur líka fullorðnu barnanna. Apríl hefur verið helgaður börnum síðan 2018, en þá var fyrsta Barnamenningarhátíð bæjarins haldin. Elísabet Ögn Jóhannsdóttir er verkefnastjóri menningarmála hjá Akureyrarbæ, og skipuleggjandi hátíðarinnar, sem hefst formlega 1. apríl. Hún segir að hátíðin verði lifandi og skemmtileg í ár, en hápunktinum verður náð á Sumartónleikunum, þar sem bræðurnir í VÆB ætla að koma fram og djamma með krökkum bæjarins á öllum aldri.
Krakkarnir völdu VÆB
Barnamenningarhátíðin 2025 mun líkjast sjálfri sér að mörgu, en eins og staðan er í dag, eru 33 viðburðir á viðburðadagatali hátíðarinnar. Sumt er árlegt og er á sínum stað, eins og listasýningin Sköpun bernskunnar á Listasafninu, Hæfileikakeppni Akureyrar, Upptakturinn, hátíðardagskrá á Sumardaginn fyrsta og Sumartónleikar Barnamenningarhátíðar.
„Það hefur verið þannig að kosning er haldin í grunnskólum bæjarins og krakkarnir fá að velja hvaða listamönnum eða hljómsveit er boðið að halda tónleikana,“ segir Elísabet Ögn. „Í fyrra kom MC Gauti, en í ár hafa krakkarnir valið bræðurna í VÆB, sem fara fyrir hönd Íslands í Eurovision í maí, þannig að það er mikill spenningur fyrir þessu. Þessir tónleikar hafa alltaf verið á sumardaginn fyrsta, en í ár verða þeir 8. apríl kl. 18 í Hamraborg í Hofi. Stelpnahljómsveitin Skandall ætlar að spila með, en þær eru héðan.“ Elísabet Ögn minnir á að það er takmarkaður sætafjöldi, gott að mæta tímanlega og allir komast að á meðan húsrúm leyfir.
Mikill spenningur verður eflaust fyrir VÆB bræðrum. Mynd: Viðburðardagatal Barnamenningarhátíðar
Leikskólabörn og tónlistarnemendur leiða saman hesta sína
„Eitt af því sem nýtt af nálinni hjá okkur, er verkefnið Söngvavor,“ segir Elísabet Ögn. „Það er fyrir elstu krakka leikskólanna í samstarfi við tónlistarskólana, en valið er tónskáld fyrir verkefnið hverju sinni. Í ár er það Bragi Valdimar Skúlason, og þemað er 'Leikur að orðum'. Nemendur tónlistarskólanna æfa lögin saman í hljómsveit og leikskólakrakkarnir æfa textana, og svo fá þau að heimsækja tónlistarskólann og kynnast nemendum þar og hljóðfærunum sem þau spila á. Í lokin verða svo haldnir tónleikar, en þeir verða strax í upphafi hátíðarinnar, 1. apríl í Hofi.“ Elísabet segir að verkefnið sé hluti af stærra verkefni á landsvísu og byggir á áralangri samvinnu Tónskóla Sigursveins og nokkurra leikskóla í Reykjavík.
Mikill áhugi fyrir því að taka þátt
„Á hverju ári þá opnum við fyrir umsóknir í október, þar sem hver sem er getur sent inn hugmyndir að viðburðum,“ segir Elísabet Ögn. „Það er alltaf góð þáttaka, enda skemmtileg hátíð. Bæjarstjórnin velur faghóp sem fer yfir umsóknirnar og þessi faghópur velur svo þá þáttakendur sem fá verkefnastyrk.“
Margt spennandi og skemmtilegt verður á dagskrá Barnamenningarhátíðar í ár, en lesendur eru hvattir til þess að skoða viðburðardagatalið vel.
Sýnishorn af viðburðadagatalinu, en það er allskonar í boði. HÉR er linkur á dagatalið. Mynd: Skjáskot