Fara í efni
Menning

VÆB bræður troða upp í Hamraborg í kvöld

Barnamenningarhátíð nær hámarki með árlegum sumartónleikum Sumartóna, en í ár eru það bræðurnir í VÆB sem stíga á stokk. Tónleikarnir verða í Hamraborg í Hofi og hefjast kl. 18.00. Norðlenska stelpuhljómsveitin Skandall spilar á tónleikunum líka. Það er frítt inn og öll velkomin á meðan húsrúm leyfir. 

VÆB bræður, þeir Matthías Davíð og Hálfdán Helgi Matthíassynir, skutust upp á stjörnuhiminnn á síðasta ári þegar þeir tóku fyrst þátt í undankeppni Söngvakeppni sjónvarpsins með laginu Bíómynd. Þá urðu þeir í öðru sæti en þeir komu tvíefldir til baka í ár og unnu keppnina með laginu RÓA, en lagið semja þeir sjálfir.

Skandall er stúlknahljómsveit uppsprottin á Norðurlandi sem hefur starfað síðan árið 2022, segir í frétt á vefsíðu Akureyrarbæjar. Hljómsveitina skipa þær Helga Björg (rafbassi og víóla), Inga Rós (söngur), Kolfinna Ósk (hljómborð og fiðla), Margrét (rafbassi og rafmagnsgítar), Sóley Sif (trommur og bakraddir) og Sólveig Erla (þverflauta).

Ferill þeirra er að hefjast fyrir alvöru og hafa þær spilað víða á útihátíðum, böllum o.s.frv. og hafa tekið þátt og sigrað ýmsar keppnir, svo sem Söngkeppni MA og Viðarstauk, segir ennfremur í fréttinni.

Kynnar á tónleikum Sumartóna eru París Anna Bergmann og Rebekka Rut Birgisdóttir.