Menning
Úr gullkistu Freyvangsleikhússins
27.10.2023 kl. 14:00
Félagsheimilið Freyvangur. Mynd af vef Eyjafjarðarsveitar.
Hollvinir Freyvangsleikhússins standa fyrir tónleikunum Úr gullkistu Freyvangsleikhússins á morgun, fyrsta vetrardag, kl. 20.
Flutt verður tónlist úr ýmsum áttum og er meginþemað fyrrverandi félagar Freyvangsleikhússins. Flytjendur eru ýmist landsfrægir eða jafnvel heimsfrægir á Íslandi, eða að minnsta kosti í Eyjafirði. Tónleikarnir verða haldnir aðeins í þetta eina skipti að því er fram kemur í auglýsingu.
Hollvinir standa að þessum viðburði einu sinni á ári til að styðja við rekstur hússins eftir að Freyvangsleikhúsið tók alveg við honum þegar Eyjafjarðarsveit vildi selja húsið. Allt er unnið í sjálfboðavinnu í kringum tónleikana og rennur ágóðinn óskertur til Freyvangsleikhússins.