Fara í efni
Menning

Úr djúpinu – Hymnodia í Akureyrarkirkju

Kammerkórinn Hymnodia heldur tónleika í Akureyrarkirkju annað kvöld, miðvikudagskvöldið 22. nóvember, klukkan 20.00.

Hymnodia hefur starfað undir stjórn Eyþórs Inga Jónssonar frá 2003. „Kórinn er orðinn bæjarbúum vel kunnur enda hefur hann í gegnum árin sinnt ötullega flutningi tónlistar úr öllum áttum og frá ýsmum tímum,“ segir í tilkynningu. „Í þetta sinn verður á efnisskránni spennandi og óvænt blanda; annars vegar spænsk tónlist frá 16. og 17. öld og hins vegar austur-evrópsk tónlist frá 20. og 21. öld. Tilfinningaskalinn er allur undir, allt frá tærri, ljúfri endurreisnartónlist og fjörugu barokki yfir í þykka ungverska ofurdramatík og eistneskan tóna-arkítektúr,“ segir ennfremur.

„Kórinn fær til liðs við sig frábæra hljóðfæraleikara sem öll starfa hér í bæ: Steinunni Arnbjörgu Stefánsdóttur, selló, Sigrúnu Mögnu Þórsteinsdóttur, orgel og píanó, Emil Þorra Emilsson, slagverk og Daniele Basini, gítar auk þess sem Eyþór Ingi leikur á spinettu.“

Miðar verða seldir við innganginn og kosta 4.000 krónur.