Menning
Ungskáld: Erpur stýrir fyrra ritlistarkvöldinu
25.03.2025 kl. 16:00

Erpur Eyvindarson heldur vinnustofu/ritlistarsmiðju fyrir Ungskáld. Mynd: Akureyri.is
Erpur Eyvindarson er einn þekktasti rappari landsins, hluti af XXX Rottweilerhundum og einn af brautryðjendum rappsenunnar á Íslandi. Hann hefur víðtæka reynslu af skrifum, en fyrir utan það að skrifa rapptexta hefur hann reynslu af ritstjórn, handrita- og greinaskrifum og hefur stýrt sjónvarps- og útvarpsþáttum. Erpur stýrir fyrra ritlistarkvöldi Ungskálda á Akureyri á morgun, miðvikudag, á LYST í Lystigarðinum á milli kl. 20 og 22.
Ungskáld er verkefni sem er eitt sinnar tegundar á landinu. Verkefnið hefur verið haldið síðan 2013 og gengur út á að efla ritlist og skapandi hugsun hjá ungu fólki á aldrinum 16-25 ára. Það samanstendur af ritlistarsmiðjum og ritlistarkeppni Ungskálda sem er haldin árlega.
Ritlistarsmiðjan með Erpi er, samkvæmt viðburðarlýsingunni á Facebook síðu Akureyrarbæjar; frábært tækifæri til að læra eitthvað nýtt, kynnast skrifum annarra og jafnvel lesa upp sín eigin verk.
Veitingar verða í boði fyrir skráða gesti, en skráning fer fram hér.
Í nefnd Ungskálda eru fulltrúar frá atvinnu-, markaðs- og menningarteymi Akureyrarbæjar, Verkmenntaskólanum á Akureyri, Menntaskólanum á Akureyri, Ungmennahúsinu í Rósenborg og Amtsbókasafninu.
Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra og Akureyrarbæ.