Ungir listamenn í sumardagskrá MAK
Listsjóðurinn VERÐANDI hefur þau meginmarkmið að auðvelda ungu listafólki og þeim sem standa utan stofnana að nýta sér aðstöðuna í Hofi, stuðla að fjölbreytileika í listviðburðum. Í tilefni 10 ára afmælis Hofs (og eins betur) var auglýst eftir umsóknum í sjóðinn fyrir listviðburði nú í sumar. Alls hlutu 13 verkefni styrki og dagskráin hefur verið birt. Einn viðburður verður í maí, fimm í júní, einn í júlí, fimm í ágúst og einn í september. Hér er stuttlega sagt frá atburðunum í maí og júní. Síðar verður sagt frá seinni hlutanum.
Alexander Edelstein píanóleikari ríður á vaðið með tónleika í Hömrum 27. maí klukkan 20.00. Alexander mun þar flytja fjölbreytta tónleikadagskrá, en lokatónleikar hans við Listaháskóla Íslands eru núna á laugardag. Þar leikur hann verk eftir Bach, Beethoven, Schubert og Rachmaninoff. Alexander hefur á undanförnum árum haldið tónleika víða á Norðurlandi, en stefnir nú á framhaldsnám í Hollandi.
Einar Óli Ólafsson, iLo, heldur tónleika í Hofi 3. júní klukkan 20.00. Einar Óli hefur verið nemandi á skapandi braut Tónlistarskólans og komið víða fram með frumsamda tónlist sína, gefið út lög á tónlistarveitum og tók nýverið upp 9 laga plötu, Mind Like a Maze, órafmagnaða. Hún kemur ekki út fyrr en í ágúst en verður flutt á tónleikunum meðal annarra verka. Á tónleikunum fær Einar Óli valinkunna tónlistarmenn til liðs við sig.
Halla Ólöf Jónsdóttir söngkona og Steinunn Hailer Halldórsdóttir píanóleikari halda tónleika í Hofi 10. júní klukkan 20.00 og flytja þar úrval af sönglögum Jórunnar Viðar, en í desember 2018 voru liðin 100 ár frá fæðingu hennar. Þær stöllur hafa beðið eftir tækifæri til að gefa gullfallegri tónlist Jórunnar nýtt líf.
Diana Sus mun á tónleikum sínum í Hofi 16. júní klukkan 20.00 flytja lög af plötu, Winter Lullabies sem hún tók upp ásamt Risto Laur í vetur. Þar er tónlist sem Diana samdi á löngum Covidvetri, svo hún mun líka ylja upp með eldheitum sumardjassi. Diana er frá Lettlandi en hefur lokið námi frá skapandi deild Tónlistarskólans á Akureyri og unnið að margvíslegum skapandi verkefnum þess utan. Á tónleikunum kemur hún fram með hljómsveit.
Birkir Blær heldur langþráða tónleika sína í Svarta kassanum á sviði Hamraborgar 18. júní klukkan 20, langþráða því upphaflega áttu þeir að verða í mars 2020 en hefur verið frestað nokkrum sinnum vegna ástandsins og aðstæðna. Birkir Blær gaf á síðasta ári út plötuna Patient, sem hann vann með bróður sínum Hreini Orra, sem kemur fram á tónleikunum ásamt Eyþóri Inga Jónssyni og trúlega fleirum. Í bland við lög af plötunni verða flutt splunkuný lög úr smiðju Birkis Blæs.
Kammerhópurinn BJARGIR slær svo botninn í júnílotu Verðandi þann 24. júní klukkan 20.00. Þetta er strengjatríó þar sem Helga María Guðmundsdóttir og Rún Árnadóttir leika á selló og Sólrún Svava Kjartansdóttir á fiðlu. Þessar Akueryrarstúlkur voru allar við nám í Tónlistarskóla Akureyrar en eru nú í framhaldsnámi við Listaháskóla Íslands. Efnisskrá þeirra er fjölbreytt, samsett úr kammerverkum frá ólíkum tímum. Þær hafa komið fram áður á margvíslegum tónleikum hver um sig, en það verður spennandi að heyra þær leiða saman list sína á þessum vettvangi.
VERÐANDI er samstarfsverkefni Akureyrarbæjar, Menningarfélagsins Hofs og Menningarfélags Akureyrar. Aðgöngmiðar á alla viðburðina fást á mak.is og í miðasölu Hofs.
Alexander Edelstein píanóleikari ríður á vaðið 27. maí.