Ung tónskáld og fullorðnir flytjendur
Það var afskaplega gott að komast loksins á tónleika í Hamraborg í Hofi. Þetta voru líka merkilegir og óvenjulegir tónleikar. Þarna voru á sviði fínustu atvinnuhljóðfæraleikarar okkar en verkin sem þeir léku voru öll samin af tónskáldum á grunnskólaaldri, 12-15 ára. Þetta var uppskeruhátíð Upptaktsins, tónsköpunarkeppni barna og ungmenna, þar sem þau fá tækifæri til að vinna að sköpunarverkum sínum með starfandi listafólki. Alls bárust í keppnina 22 verk en dómnefnd valdi 10 til frekari vinnslu og útsetninga og þau voru öll flutt á tónleikunum í gær, sunnudaginn 9. maí. Höfundarnir ungu fengu að fylgjast með útsetningum verka sinna fyrir hljómsveit og æfingum og gátu haft áhrif á það starf. Og svo komu tónleikarnir sjálfir.
Tónksáldin eru öll í grunnskólum á Eyjafjarðarsvæðinu. Hér eru nöfn þeirra í stafrófsröð og heiti verkanna:
- Aðalheiður Jóna Kolbeins Liljudóttir – Tröll og grjót
- Daníel Hrafn Ingvarsson – Who are you tryna fool
- Gísli Freyr Sigurðsson – Wicked WonderLand
- Heimir Sigurpáll Árnason – Kveðja til þín
- Jóhann Valur Björnsson – Uncertain River
- Lea Dalstein Ingimarsdóttir – Fuglinn
- Mauhaut Ingríður Matharel – XLIX
- Óðinn Atlason – Desember
- Reginn Ólafur Egilsson – Geimveran
- Þórný Sara Arnþórsdóttir og Amanda Eir Steinþórsdóttir – Loginn
Það var eiginlega með ólíkindum hversu góð og fjölbreytt þessi verk voru, einlægar kveðjur, ævintýraleg verk, verk með klassísku yfirbragði, rokk og afar huglæg kvikmyndatónlist. Við sessunautarnir vorum að ræða okkar á milli hve mikil rækt væri nú orðið lögð við sköpunargleði og hæfni barna og ungmenna og Upptakturinn er sannarlega merki þess. Og það hefur örugglega verið góð reynsla fyrir krakkana að sjá og heyra hugverkin sín í höndunum á þessu frábæra tónlistarfólki sem skipaði hljómsveitina. Daníel Þorsteinsson lék á píanó, harmonikku og celestu, Emil Þorri Emilsson á slagverk og trommur, Greta Salóme á fiðlu og hún söng líka, Kristján Edelstein spilaði á gítara, Magni Ásgeirsson söng, Phil Doyle lék á saxafón og þverflautu, Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir á selló, Stefán Ingólfsson á bassa og Vilhjálmur Ingi Sigurðsson á trompet. Útetningarnar gerðu Kristján Edelstein og Gréta Salóme og hún var tónlistarstjóri.
Upptakturinn er samstarfsverkefni Menningarhússins Hofs og Upptaktsins í Hörpu, styrkt af SSNE og er þátttakandi í Barnamenningarhátíðinni á Akureyri. Umsjón með Upptaktinum hafði Kristín Sóley Björnsdóttir.
Flest tónskáldin að loknum tónleikunum í Hofi í gær. Móðir eins skáldsins er á myndinni; hljóp í skarðið þar sem sonurinn var að syngja í söngkeppni Samfés á Akranesi.