Ukulellur með tónleika í LYST á laugardag
Ukulellur – hópur af ukulele-spilandi lesbíum á besta aldri – halda tónleika í LYST í Lystigarðinum næsta laugardagskvöld, 17. september.
Reyndar spilar ein á bassa og í hópnum eru líka slagverksleikarar, segir Ragnhildur Sverrisdóttir, ein úr hópnum, við Akureyri.net. En ukulele er það sem einkennir hljómsveitina og það litla dásemdar hljóðfæri var beinlínis hvatinn að stofnun sveitarinnar, segir Ragnhildur.
„Ukulellur“, heiti sem er samsett úr „ukulele“ og slanguryrðinu „lellur“ var einfaldlega of gott hljómsveitarnafn til að sleppa því, segir hún.
„Ukulellur eru bráðum búnar að spila saman í fjögur ár. Fyrsta giggið var afmælispartý hjá konu einnar Ukulellunnar en svo hafa uppákomurnar komið á færibandi: Á hátíðum sem tengjast Hinsegin dögum, hjá ýmsum félagasamtökum, sjálfstæðir tónleikar þar sem m.a. Þjóðleikhúskjallarinn var fylltur tvisvar, þátttaka í opnunarsýningu Listahátíðar í Reykjavík, World Pride í Kaupmannahöfn í fyrra og ein stærsta Pride-hátíð Þýskalands nú í sumar.“
Ukulellur nýta sér gömul og grípandi lög og setja við þau eigin texta, um ástir og örlög, rafmagnsverkfæri og raunir, gleði og gleraugu, öxulþungaþokkadísir, „vinkonur”, heitar lessur, fordóma og breytingaskeið. Þær eiga líka allnokkur frumsamin lög.
Allt þetta og meira á tónleikum Ukulella á kaffihúsinu LYST á laugardagskvöldið klukkan 20.00.
Miðar eru seldir á tix.is. Smellið hér til að kaupa miða.