Fara í efni
Menning

Tvöfaldur diskur með sellóleik Hafliða

Nýlega kom út tvöfaldur geisladiskur með sellóleik Hafliða Hallgrímssonar. Hafliði hefur á síðustu áratugum getið sér gott orð sem tónskáld en í upphafi tónlistarferils síns var hann sellóleikari „par excellence“, eins og það er orðað í tilkynningu.

Hafliði var einn af fyrstu sellónemendum Tónlistarskólans á Akureyri árið 1952 þá 11 ára gamall, fyrir 70 árum síðan. Á síðasta ári fagnaði Hafliði 80 ára afmæli sínu.

Á ferli sínum sem sellóleikari lék Hafliði oft á einleikstónleikum á Íslandi og á Bretlandseyjum þar sem hann hefur búið lengst af æfi sinnar. Hafliði þreytti frumfraun sína sem einleikari í Wigmore Hall í London árið 1971 en hann hefur einnig leikið með fjölda kammersveita m.a. Ensku kammersveitinni og sem sóló sellisti í Skosku kammersveitinni.

Að frumkvæði Hafliða hefur Polarfonia Classics ehf., útgáfufélag Þórarins Stefánssonar á Akureyri, nú gefið út úrval hljóðrita frá ýmsum tímum þar sem Hafliði „gerir hreint fyrir sínum dyrum hvað sellóleikinn varðar“, eins og hann orðar það sjálfur. Á diskunum leikur hann ýmist einn eða í samleik með öðrum, m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Hafliði leikur á sellóið heima á Akureyri árið 1953.