Fara í efni
Menning

Tvennir tónleikar í Listasafninu í dag

Bára Grímsdóttir, staðartónskáld hátíðarinnar, og Akureyringurinn Petrea Óskarsdóttir flautuleikari.
Þriðji dagur WindWorks í Norðri 2024 tónlistarhátíðarinnar er í dag, laugardag. Þá fara fram tvennir tónleikar í Listasafninu á Akureyri, þeir fyrri kl. 14 og hinir seinni kl. 15.
 
Fyrri tónleikarnir eru einleikstónleikar þar sem Petrea Óskarsdóttir leikur að mestu ný verk sem samin hafa verið sérstaklega fyrir hana í tilefni tónleikanna.
 

Bára Grímsdóttir er staðartónskáld hátíðarinnar og frumflytur Petrea verkið Andvari I sem samið er fyrir þrjár gerðir flauta – auk hefðbundinnar þverflautu, einnig piccolo og altflautu. Í verkinu vinnur Bára út frá ólíkri merkingu orðsins andavari; sem getur lýst því að hafa andvara á sér, lýsir hægum vindi en er einnig nafn dvergs í norrænni goðafræði, að því er segir í tilkynningu.

Þá frumflytur Petrea verk Kolbeins Bjarnasonar, Litbrigði fyrir piccolóflautu. Kolbeinn sækir þar áhrif í japanska flautuhefð. Einnig er á efnisskránni verk sem Sunna Friðjónsdóttir samdi fyrir Petreu árið 2020 og ber titilinn Through the Haze. Sunna sækir innblástur í mistrið, hitann og rauðu moldina í suður Afríku. Að lokum leikur Petrea eldra verk, Piece eftir Jaques Ibert frá 1936 sem er eitt af þekktari verkum flautubókmenntanna.

Akureyringurinn Petrea Óskarsdóttir flautuleikari.

Á seinni tónleikunum munu þau Helga Björg Jóhönnu Arnardóttir klarínettuleikari og Jesper Pedersen tónskáld frumflytja Serendipitous Pathways fyrir kontrabassaklarínett og rafhljóð. „Í verkinu leiða flytjendur áheyrendur í gegnum ómandi ferðalag þar sem þau rannsaka yfirtónaeiginleika kontrabassaklarínetts sem er undir stjórn hljóðfæraleikarans og utanaðkomandi rafhljóða. Hljóðfærinu er umbreytt með svokölluðu „talk box“ sem sendir hljóð aftur inn í hljóðfærið og myndar þannig „feedback-hringrás“. Með því er hægt að framkalla dróna og „yfirtónadrauga“ í gegnum kontrabassaklarínettið en á sama tíma er leikið á hljóðfærið á hefðbundinn hátt, en með ófyrirsjáanlegri útkomu,“ segir í tilkynningu frá hátíðinni.

Eitt helsta markmið WindWorks í Norðri er að stuðla að nýsköpun í tónlist en einnig að skapa tækifæri og vetvang fyrir tré- og málmblásara til að koma fram og eiga samstarf við tónskáld. WindWorks í Norðri leggur áherslu á frumflutning nýrra tónverka íslenskra tónskálda fyrir blásturshljóðfæri til dæmis með því að panta verk. Mikilvægur þáttur í þá átt er að í annað sinn skartar hátíðin WindWorks í Norðri nú staðartónskáldi. Það er að þessu sinni Bára Grímsdóttir. Mun þetta vera í fyrsta sinn á Norðurlandi sem slíkt er gert.

Aðgangur ókeypis og allir velkomnir eftir því sem húsrúm leyfir. Nánari upplýsingar á www.windworksfest.com