„Tveir mosagrónir“ úr stjórn Sögufélagsins
Helst bar til tíðinda á aðalfundi Sögufélags Eyfirðinga á dögunum að „tveir nær mosagrónir fulltrúar í stjórn gengu úr skaftinu,“ eins og segir í tilkynningu frá félaginu! „Annar, Guðmundur Steindórsson hefur setið í stjórn félagsins síðan haustið 1988. Guðmundur var formaður frá 1989 til 1997, þá stjórnarmaður og gjaldkeri síðustu ár. Hinn sem lætur nú af stjórnarmennsku í Sögufélaginu er Jón Hjaltason. Haustið 1991 gekk Jón í raðir stjórnarmanna og sumarið 1997 tók hann við formennskunni af Guðmundi og hefur gegnt því starfi síðan.
Báðir höfðu lofað að hlaupast ekki undan merkjum – nema fram á það væri farið – fyrr en hið mikla rit Stefáns Aðalsteinssonar, Eyfirðingar framan Glerár og Varðgjár, kæmist á þrykk. Nú hefur sá draumur ræst, sex binda stórvirki Stefáns og ritnefndarinnar, sem að verkinu stóð, hefur litið dagsins ljós.“
Á aðalfundinum kom fram að hagur Sögufélags Eyfirðinga er í senn góður og slæmur. „Félagið stendur tiltölulega vel fjárhagslega en aftur á móti illa félagslega. Félagsmenn hafa verið að týna tölunni, mest vegna þess sem bíður okkar allra á endanum, en stjórnin ekki haft nauðsynlega burði til að fylla í skörðin. Á þessu þarf að ráða bót sem bíður nýrrar stjórnar en hana skipa Arnór Bliki Hallmundsson, Jakob Tryggvason, Jón Hlynur Sigurðsson, Jóna Friðriksdóttir og Rannveig Karlsdóttir. Varamenn eru Aðalheiður Steingrímsdóttir og Þorsteinn Hjaltason.“
Rannveig Karlsdóttir, sem er einnig ritari Sögufélags Eyfirðinga, flutti fundarmönnum fróðlegt erindi sem hún nefndi: „Maður fór eins og asni út í heiminn, bæða peningalaus og klæðalaus.“ Um ævi og störf brautryðjandans og kvenskörungsins Jóninnu Sigurðardóttur. Að baki Rannveigar situr fundarstjórinn, Jóna Friðriksdóttir, en hún er jafnframt varaformaður félagsins.