Fara í efni
Menning

Tríó Kristjönu Stefáns í Hlöðunni Litla-Garði

Í nýfengnu frelsi frá takmörkunum í Kófinu streyma listamenn um landið þvert og endilangt, sýna sig og sjá menningarþyrsta aðdáendur. Það mætti líkja þessu við það þegar ákveðnum búpeningi er sleppt út undir bert loft að vori, en það verður ekki gert hér.

Í hópi þeirra frábæru listamanna sem ljá fögru sumri lit er hin alkunna söngkona og tónskáld Kristjana Stefáns. Hún gerir eins og fleiri, leggur land undir fót og lætur til sín taka – oft og tíðum á fáförnum en skemmtilegum tónleikastöðum. Hún mun meðal annars troða upp í einhverju skemmtilegasta tónleikahúsi Akureyringa, Hlöðunni í Litla-Garði laugardaginn 17. júlí klukkan 21.00. Með sér hefur hún á sviði Ómar Guðjónsson sem leikur á gítara og Þorgrím Jónsson sem leikur á kontrabassa. Báðir taka þeir undir söng Kristjönu, sem sjálf spilar auk þess á hljómborð og slagverk. Þetta er sumsé Tríó Kristjönu Stefáns.

Dagskráin kallast Sjana syngur strákana, en þar verður boðið upp á fjölbreyttan lagalista þar sem fluttar verða brakandi ferskar og létt djassaðar útsetningar á lögum frá ma. Bubba Morthens, Björgvini Halldórs, KK, Stuðmönnum Ragga Bjarna, Þóri Baldurs, Páli Óskari og Gunnari Þórðar.

Miðasala er á tix.is